75 þúsund færri farþegar um innan­lands­flug­vellina

Áfram fækkar þeim sem fljúga innanlands og í ljósi niðurskurðar hjá flugfélögunum gæti þessi þróun haldið áfram næstu misseri.

Frá flugvellinum á Ísafirði. Mynd: Air Iceland Connect

Fyrstu níu mánuði ársins flugu rétt um 540 þúsund farþegar til og frá innan­lands­flug­völlum landsins. Samdrátt­urinn nemur um tólf af hundraði en þess ber að geta að farþegar sem nýta sér alþjóða­flug frá Reykja­vík­ur­flug­velli og Akur­eyri eru meðtaldir. Um minnstu flug­velli landsins fækkaði farþegum um fimmtung fyrstu níu mánuðina eins og sjá má á töfl­unni hér fyrir neðan en samdrátt­urinn á Akur­eyri var tölu­vert minni eða 6,6 prósent.

Þróunin í nýliðnum sept­ember var álíka og aðra mánuði ársins því þá nam fækk­unin um 11 prósentum. Líkt og endur­tekið hefur komið fram þá hefur rekstur Air Iceland Connect og flug­fé­lagsins Ernis verið þungur síðustu misseri. Stjórn­endur fyrir­tækj­anna hafa brugðist við með því að fækka ferðum og selja flug­vélar.

Í drögum að grænbók um stefnu stjórn­valda í málefnum flugrekstrar, sem kom út í sumar, er bent á að fjöldi farþega í innan­lands­flugi hafi gengið í sveiflum á síðustu áratugum. Í skýrsl­unni er til að mynda áætlað að opnun Land­eyja­hafnar og auknar álögur á  innan­lands­flug hafi dregið úr fjölda farþega um 70 þúsund. „Á tíma­bilinu 2009 til 2013 þreföld­uðust álögur vegna hækkana á lend­ing­ar­gjöldum, kolefn­is­skatti og flug­leið­sögu­gjaldi,” segir í drög­unum og þar jafn­framt bent á að rann­sóknir sýni að 10 prósent hækkun fargjalda valdi um 5 til 10 prósent fækkun í fjölda farþega.

Erlendir ferða­menn munu standa undir fimmt­ungi þess fjölda sem nýtir sér innan­lands­flug samkvæmt því sem fram kemur í skýrsl­unni. Í því samhengi má benda á að fyrstu níu mánuðina árið 2012, þegar ferða­manna­straum­urinn var þyngjast hratt, þá komu hingað um 537 þúsund erlendir ferða­menn. Á sama tíma­bili fóru í heildina 629 þúsund farþegar um innan­lands­flug­vellina. Núna voru þeir rétt um 540 þúsund en aftur á móti hafa komið hingað tæplega 1,6 milljón erlendra ferða­manna í ár.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista