Afkoma flugfélaga fram úr væntingum

Þó síðustu misseri hafi reynst mörgum flugfélögum erfið þá var góður gangur hjá Delta og EasyJet á síðasta fjórðungi.

Þota Delta á Keflavíkurflugvelli. MYND: DELTA AIR LINES

Kjaradeildur og kyrrsettar MAX þotur hafa sett strik í reikninginn hjá ófáum flugfélögum í ár sem hafa af þeim sökum þurft að fella niður ferðir og leigja dýrar þotur til að takast á við ástandið. Á sama tíma hefur árið verið gott hjá sumum af þeim flugfélögum sem ekki eiga Boeing MAX þotur eða standa í stappi við starfsfólk um launakjör. Það er alla vega raunin hjá Delta Air Lines og easyJet en bæði fyrirtæki birtu í vikunni afkomu sína á síðasta ársfjórðungi.

Þannig var sumarvertíðin sú besta í sögu Delta flugfélagsins og skrifast það meðal annars á þá staðreynd að helstu keppinautar félagsins þurftu að fella niður þúsundir ferða vegna Boeing MAX krísunnar. Hagnaður Delta á þriðja ársfjórðungi jókst því um þrettán prósent og nam um einum og hálfum milljarði dollara.

Meðvindin hjá easyJet má svo að töluverðu leyti rekja til verkfalla hjá British Airways og Ryanair samkvæmt því sem fram kom í máli forstjórans þegar afkoman á fjórðungnum var kynnt í gær. Vegna þessa þá með gerir forsvarsfólk breska lággjaldaflugfélagsins ráð fyrir að hagnaður ársins verði aðeins meiri en áður var spáð en þó minni en í fyrra.

Bæði easyJet og Delta hafa verið umsvifamikil í Íslandsflugi síðustu ár en hafa bæði dregið aðeins úr að undanförnu. Þannig munu þotur Delta ekki fljúga hingað í vetur frá JFK flugvelli í New York og easyJet heldur ekki uppi eins tíðum áætlunarferðum frá Bretlandi til Keflavíkurflugvallar í vetur. Félagið mun heldur ekki fljúga hingað frá Basel og Genf í Sviss næsta sumar.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista