Áfram lengist biðin eftir MAX

Stjórnendur Icelandair fylgja nú fordæmi fleiri flugfélaga og gera nú fyrst ráð fyrir MAX þotunum í lok febrúar. Niðurstöður rannsóknar á hrapi Boeing vélar Lion Air í Indónesíu voru kynntar í dag.

MAX þotur við verksmiðjur Boeing í Washington fylki í Bandaríkjunum. MYND: SOUNDERBRUCE / CREATIVECOMMONS 4.0)

Fyrir rúmum sjö mánuðum síðan voru Boeing 737 MAX þotur kyrrsettar um heim allan í kjölfar tveggja flugslysa sem kostuðu 346 manns lífið. Fyrr í dag kynntu rannsakendur fyrra atviksins, hrapi Boeing MAX þotu Lion Air í Indónesíu, niðurstöður sínar. Þar kemur meðal annars fram að slysið megi rekja til röð mistaka sem tengist flugvélaframleiðandanum, flugfélaginu og flugmönnunum. Flest þessara mistaka munu snúa að einhverjum hætti að hinu margumrædda MCAS-stýrikerfi flugvélanna samkvæmt því sem fram kemur í frétt BBC. Boeing hefur ekki ennþá tjáð sig um niðurstöðuna.

Forsvarsmenn Boeing hafa þó með jöfnu millibili gefið út að þeir eigi von á því að þoturnar fari í loftið á ný fyrir ákveðna tímasetningu en það hefur ekki gengið eftir hingað til. Nú síðast sagði forstjóri Boeing að hann ætti von á kyrrsetningu þotanna yrði aflétt fyrir lok árs. Engu að síður hafa sífellt fleiri flugfélög gert ráðstafanir sem miða að því að biðin verði lengri en forstjóri Boeing telur. Fyrr í þessum mánuði tóku stjórnendur Air Canada og Southwest flugvélarnar út úr áætlun fram í febrúar og hjá Norwegian er fyrst reiknað með þotunum á ný þegar sumardagskráin hefst í lok mars. Í gær bættist Icelandair svo í flokk þessara félaga því þar á bæ er núna fyrst reiknað með MAX þotunum  í lok febrúar. Þessi ákvörðun mun hafa lítil áhrif á flugáætlun félagsins.

„Eins og við höfum áður sagt, teljum við ólíklegt að MAX vélarnar verði komnar aftur í rekstur fyrir lok þessa árs. Við viljum hins vegar lágmarka áhrif á farþega okkar og framlengja þetta tímabil með góðum fyrirvara, enda gott svigrúm hjá okkur á þessum árstíma að nýta aðrar vélar í flotanum hjá okkur,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningu.