Arnar Þór kemur í stað Sigurðar

Nýr framkvæmdastjóri mannauðs og stefnumótunar hjá Isavia.

Isavia rekur flugvelli landsins og þar á meðal Keflavíkurflugvöll. Mynd: Isavia

Í fram­kvæmda­ráði Isavia sitja níu fram­kvæmda­stjórar auk Svein­björns Indriða­sonar forstjóra. Núverið lét Sigurður Ólafsson af störfum sem fram­kvæmda­stjóri mannauðs og árangurs og sæti hans tekur nú Arnar Þór Másson. Titill Arnars verður þó annar því hann verður fram­kvæmda­stjóri mannauðs og stefnu­mót­unar en ekki árangurs.

Í tilkynn­ingu frá Isavia segir að samhliða ráðn­ingu Arnars verði áherslu­breyt­ingar innan fyrir­tæk­isins. „Vinna við stefnu­mótun og ábyrgð á innleið­ingu stefnu verður færð inn á mannauðs­svið, sem mun hér eftir bera heitið mannauður og stefnu­mótun. Með þessu er lögð meiri áhersla en áður á að styðja við stjórn­endur og starfs­menn til að ná þeim mark­miðum sem Isavia setur hverju sinni.”

Arnar Þór er með meist­ara­gráðu í stjórn­mála­fræði frá London School of Economics and Political Science. Hann starfaði á árunum 2016–2019 í stjórn European Bank for Reconstruction and Develop­ment í London og á árunum 2010–2016 var hann skrif­stofu­stjóri hjá forsæt­is­ráðu­neytinu. Hann situr einnig í stjórn Marel og er vara­formaður stjórnar.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista