Arnar Þór kemur í stað Sigurðar

Nýr framkvæmdastjóri mannauðs og stefnumótunar hjá Isavia.

Isavia rekur flugvelli landsins og þar á meðal Keflavíkurflugvöll. Mynd: Isavia

Í framkvæmdaráði Isavia sitja níu framkvæmdastjórar auk Sveinbjörns Indriðasonar forstjóra. Núverið lét Sigurður Ólafsson af störfum sem framkvæmdastjóri mannauðs og árangurs og sæti hans tekur nú Arnar Þór Másson. Titill Arnars verður þó annar því hann verður framkvæmdastjóri mannauðs og stefnumótunar en ekki árangurs.

Í tilkynningu frá Isavia segir að samhliða ráðningu Arnars verði áherslubreytingar innan fyrirtækisins. „Vinna við stefnumótun og ábyrgð á innleiðingu stefnu verður færð inn á mannauðssvið, sem mun hér eftir bera heitið mannauður og stefnumótun. Með þessu er lögð meiri áhersla en áður á að styðja við stjórnendur og starfsmenn til að ná þeim markmiðum sem Isavia setur hverju sinni.“

Arnar Þór er með meistaragráðu í stjórnmálafræði frá London School of Economics and Political Science. Hann starfaði á árunum 2016-2019 í stjórn European Bank for Reconstruction and Development í London og á árunum 2010-2016 var hann skrifstofustjóri hjá forsætisráðuneytinu. Hann situr einnig í stjórn Marel og er varaformaður stjórnar.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista