Bæta við brott­förum til Íslands

Það er eftirspurn eftir tíðari ferðum til Íslands yfir hásumarið að mati stjórnenda SAS.

Frá Stokkhólmi. Mynd: Henrik Trygg

Allt árið um kring fljúga þotur SAS hingað til lands frá Ósló og Kaup­manna­höfn og nú í sumar bættust við ferðir frá Stokk­hólmi yfir háanna­tímann. Og nú liggur fyrir að ferð­unum þaðan verður fjölgað næsta sumar líkt gert var ráð fyrir. Ný sumaráætlun SAS gerir þannig ráð fyrir þremur ferðum í viku hingað frá Arlanda flug­velli við Stokk­hólmi frá lokum júní og fram í byrjun ágúst. Ferð­irnar voru tvær í viku á nýliðnu sumri.

Meiru munar þó senni­lega um viðbótin í Kaup­manna­höfn því þaðan munu þotur SAS fljúga allt að tíu sinnum í viku til Íslands næsta sumar. „Við fjölgum brott­förum til Íslands frá Kaup­manna­höfn og Stokk­hólmi yfir háönnina. Við sjáum að það eftir­spurn til staðar og vinnum hörðum höndum að því að laga leiða­kerfi okkar að bæði árstíða­sveilfum og óskum farþega,” segir í Freja Anna­matz, blaða­full­trúi SAS, í svari til Túrista.

Auk SAS þá flýgur Icelandair reglu­lega til skandi­nav­ísku höfuð­borg­anna þriggja. Til viðbótar þá býður Norwegian upp á flug hingað frá Ósló og tékk­neska flug­fé­lagið Czech Airlines flýgur nú hingað frá Prag með milli­lend­ingu í Kaup­manna­höfn. Fram­boðið á ferðum til frænd­þjóð­anna er því tölu­vert og eykst aðeins næsta sumar eins og staðan er í dag. Endanleg sumaráætlun Icelandair liggur þó ekki fyrir.
Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista