Bæta við brottförum til Íslands

Það er eftirspurn eftir tíðari ferðum til Íslands yfir hásumarið að mati stjórnenda SAS.

Frá Stokkhólmi. Mynd: Henrik Trygg

Allt árið um kring fljúga þotur SAS hingað til lands frá Ósló og Kaupmannahöfn og nú í sumar bættust við ferðir frá Stokkhólmi yfir háannatímann. Og nú liggur fyrir að ferðunum þaðan verður fjölgað næsta sumar líkt gert var ráð fyrir. Ný sumaráætlun SAS gerir þannig ráð fyrir þremur ferðum í viku hingað frá Arlanda flugvelli við Stokkhólmi frá lokum júní og fram í byrjun ágúst. Ferðirnar voru tvær í viku á nýliðnu sumri.

Meiru munar þó sennilega um viðbótin í Kaupmannahöfn því þaðan munu þotur SAS fljúga allt að tíu sinnum í viku til Íslands næsta sumar. „Við fjölgum brottförum til Íslands frá Kaupmannahöfn og Stokkhólmi yfir háönnina. Við sjáum að það eftirspurn til staðar og vinnum hörðum höndum að því að laga leiðakerfi okkar að bæði árstíðasveilfum og óskum farþega,“ segir í Freja Annamatz, blaðafulltrúi SAS, í svari til Túrista.

Auk SAS þá flýgur Icelandair reglulega til skandinavísku höfuðborganna þriggja. Til viðbótar þá býður Norwegian upp á flug hingað frá Ósló og tékkneska flugfélagið Czech Airlines flýgur nú hingað frá Prag með millilendingu í Kaupmannahöfn. Framboðið á ferðum til frændþjóðanna er því töluvert og eykst aðeins næsta sumar eins og staðan er í dag. Endanleg sumaráætlun Icelandair liggur þó ekki fyrir.
Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista