Daglegar ferðir til Prag næsta sumar

Tékkneska flugfélagið Czech Airlines bætir verulega í Íslandsflug sitt.

Frá Prag en þangað verður flogið daglega frá Keflavík næsta sumar. Lagt verður í hann stuttu eftir miðnætti og því lent í morgunsárið í tékknesku höfuðborginni. Mynd: Alejandro Cartagena / Unsplash

Eftir að Wizz Air hætti að fljúga héðan frá Prag þá hefur Czech Airlines verið eina flugfélagið með áætlunarferðir héðan til höfuðborgar Tékklands. Síðustu sumur hefur þetta stærsta flugfélag Tékka boðið upp á þrjár ferðir í viku hingað en brottfarirnar verða mun tíðari á næsta vertíð. Þá munu þotur félagsins nefnilega fljúga hingað daglega frá vetrarlokum og fram á haust. Áður takmörkuðust ferðirnar við lok maí og fram í september. Tímabilið lengist því til muna og ferðunum fjölgar.

Þessu til viðbótar þá geta farþegar Czech Airlines flogið milli Íslands og Tékklands í allan vetur en þó með millilendingu í Kaupmannahöfn eins og Túristi hefur áður greint frá. Það þýðir að farþegar geta valið að fljúga héðan til Kaupmannahafnar eða Prag. Þar með eru flugfélögin þrjú sem fljúga milli Íslands og Kaupmannahafnar í vetur því Icelandair og SAS eru einnig með tíðar brottfarir á þessari leið. Tékkneska flugfélagið er þó áfram eitt um flugið til Prag, bæði hið óbeina flug í vetur og beina flugið næsta sumar.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista