„Einstök kjör“ á MAX þotum áttu að tryggja reksturinn

Primera Air keypti tuttugu MAX9 þotur af Boeing og ætlunin var að nýta þessa kaupsamninga sem tryggingu fyrir brúarfjármögnun frá Arion banka. Í ljósi kyrrsetningar á MAX þotum má leiða líkum að því að Primera Air hefði lent í miklum vanda stuttu eftir að lánið frá Arion hefði verið í höfn.

Þota á vegum Primera Air á Stansted flugvelli í London. Mynd: London Stansted

Í annað sinn á skömmum tíma hafa stjórnendur Arion séð ástæðu til að færa niður eignir vegna Travelco samsteypunnar, áður Primera Travel Group, sem bankinn leysti til sín í sumarbyrjun. Samkvæmt tilkynningu sem Arion sendi frá sér í gær var virði hlutarins lækkað um 600 milljónir á þriðja ársfjórðungi þar sem reksturinn er þyngri en ráð var fyrir gert. Sú lækkun bætist við 536 milljóna króna niðurfærslu á lánunum sem gerð var tengslum við yfirtökuna. Bankinn reynir nú að koma fyrirtækinu í verð en það rekur sjö norrænar ferðaskrifstofur. Þar á meðal Heimsferðir og Terra Nova hér á landi en þær tvær hafa verið færðar í sér félag.

Rekja má aðdraganda þess að Arion tók yfir ferðaskrifstofurnar til gjaldþrots Primera Air í byrjun október í fyrra. Flugfélagið var hluti af Primera Travel Group sem Andri Már Ingólfsson átti og rak um langt skeið og sá Primera Air sér lengstum um að fljúga viðskiptavinum ferðaskrifstofanna í frí. Primera Air breytti svo um kúrs í fyrra og varð lággjaldaflugfélag sem flutti farþega yfir Norður-Atlantshafið. Tveimur mánuðum eftir fall Primera Air fullyrti Andri Már því hins vegar yfir, í Viðskiptablaðinu, að Primera Air væri enn á flugi hefði Arion banki verið reiðubúinn til að veita félaginu brúarfjármögnun, líkt og staðið hafði til, þar til skuldabréfaútboði félagsins væri lokið. „Það er ljóst að ef sú fjármögnun hefði komið, væri Primera Air enn í rekstri,“ sagði Andri Már.

Þarna var um að ræða rúmlega fimm milljarða lán sem tryggja áttu með veði í Boeing þotum sem Andri Már hafði áður sagst hafa fengið á „einstökum kjörum“ í viðtali við Fréttablaðið. Um var að ræða kaup á tuttugu MAX 9 þotur og var ætlunin að þær yrðu notaðar í nýtt áætlunarflug Primera Air frá Berlín, Frankfurt, Brussel og Madríd til Norður-Ameríku. Miðasala í ferðirnar var nýlega hafin þegar flugfélagið fór í þrot.

En eins og alkunna er þá voru allar þotur af gerðinni Boeing MAX kyrrsettar um miðjan mars og ennþá er ekki vitað hvenær þær komast í loftið á ný. Það má því telja mjög líklegt að Primera Air hefði komist í mikinn vanda síðastliðið sumar þegar áætlunarflugið frá hinum fjórum evrópsku borgum til Bandaríkjanna og Kanada átti að hefjast. Hvernig tekist hefði að greiða úr þeirri flækju skal ósagt látið en í ljósi þess hve kyrrsetningin hefur reynst Icelandair dýr þá væri upphæðin sem Arion afskrifaði í gær kannski nokkru hærri ef bankinn hefði veitt hina umtöluðu brúarfjármögnun síðastliðið haust.

Þess ber að geta að stjórnendur Arion hafa neitað þeirri fullyrðingu Andra Más að bankinn gefið út lánsloforð eða fyrirheit um lánveitingu til Primera Air í lok sumars í fyrra.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista