Enginn samdráttur hjá Booking á íslenska markaðnum

Það voru Þjóðverjar sem bókuðu flestar gistingar hér á landi í gegnum Booking.com í sumar. Að höfuðborgarsvæðinu frátöldu þá nýtur Akureyri mestra vinsælda hjá notendum gistimiðlunarinnar.

Frá Akureyri en þar bóka margir notenda Booking.com gistingu. Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Þrátt fyrir að fjöldi erlendra ferðamanna hafi dregist saman um fimmtán prósent í sumar þá stóð fjöldi gistinótta á hótelum og öðrum gististöðum nánast í stað. Þetta sýna tölur Ferðamálastofu og Hagstofunnar. Og þessi þróun er jafnframt í takt við tölur gistimiðlunarinnar Booking.com sem er mjög umsvifamikil hér á landi sem víðar. Í svari fyrirtækisins, við fyrirspurn Túrista, segir að yfir sumarmánuðina þrjá hafi fjöldi bókana verið sambærilegur við sumarið á undan.

Dvalartími ferðamanna hér á landi hefur því lengst í sumar og eins hefur skekkjan í ferðamannatalningunni minnkað með færri flugleiðum til og frá Keflavíkurflugvelli eins og gera mátti ráð fyrir.

Flestir þeirra sem bóka gistingu hjá Booking panta sér herbergi á hóteli en Þjóðverjar voru sú þjóð sem bókaði flestar sumargistingar hér á landi í sumar í gegnum vefsíðuna eins og sjá má hér fyrir neðan.

Aðspurður um bókanir vetrarins þá segir blaðafulltrúi Booking að eins og staðan er í dag þá stefni í smá viðbót en hins vegar verði að hafa í huga að margir notenda Booking.com bóki gistingar með stuttum fyrirvara. Þar með sé of snemmt að álykta hvernig veturinn verði í samanburði við þann síðasta.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista