Færri Frakkar en helmingi fleiri franskar hótelnætur

Þó ferðafólki fækki hlutfallslega hratt þá er niðursveiflan lítil í kaupum útlendinga á gistingu hér á landi.

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com
Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Hingað komu rétt um fimmtungi færri erlendu ferðamennirnir í september í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þrátt fyrir það stóð fjöldi skráðra gistinátta útlendinga í stað í september. Samdráttur varð í óskraðri gistingu, t.d. Airbnb, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Í þessum mánaðarlegu uppgjörum er aðeins hægt að greina gistingar á hótelum eftir þjóðernum og þegar það er gert sést hversu ólíkar hlutafallslegar breytingar eru á fjölda ferðamanna og hótelnóttum frá hverju landi.

Eitt dæmi um það er að í september fækkaði frönskum ferðamönnum hér um tíund miðað við sama mánuði í fyrra. Aftur á móti fjölgaði hótelnóttum Frakka hér á landi um nærri helming. Nánari skoðun leiðir í ljós að Frakkar bókuðu ríflega tvöfalt fleiri gistingar á Suðurnesjum í síðasta mánuði og um helmingi fleiri á höfuðborgarsvæðinu. Þeim fjölgaði reyndar í öllum landshlutum nema á Vesturlandi og Vestfjörðum.

Hótelnóttum Þjóðverjar, Spánverja, Hollendinga og Svisslendinga fjölgaði líka þrátt fyrir að fjöldi ferðamanna frá þessum þjóðum hafi dregist saman. Eins og sést á töflunni hér fyrir neðan þá fækkaði líka hótelnóttum bandarískra og kanadískra hlutfallslega mun minna en gera hefði mátt ráð fyrir út frá ferðamannatalningunni.

Líkt og áður má rekja hluta af þessu til þeirrar staðreyndar að framboð á flugi hefur dregist verulega saman og hópur sjálftengifarþega því líklega dregist saman. Um leið minnkar skekkjan sem verið hefur í ferðamannatalningunni.

 

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista