Fjár­festar bregðast mismun­andi við MAX fréttum

Hlutabréf Icelandair hefur hækkað um fimm af hundraði í morgun sem líklega má rekja til frétta af mögulegri endurkomu MAX þotanna í janúar. Sú niðurstaða ætti að koma vel fyrir flugfélögin Norwegian og TUI en samt hefur hlutabréfaverð þeirra lækkað umtalsvert frá opnun markaða í dag.

MAX þotur við verksmiðjur Boeing í Washington fylki í Bandaríkjunum. MYND: SOUNDERBRUCE / CREATIVECOMMONS 4.0)

„Evrópsk flug­mála­yf­ir­völd gera ráð fyrir því að Boeing 737 MAX vélarnar verði komið í loftið að nýju í janúar,” segir í frétt sem Frétta­blaðið birti í morg­uns­árið. Segja má á þetta séu fyrstu jákvæðu frétt­irnir sem berast af hinum kyrr­settu Boeing flug­vélum um langt skeið. Í kjöl­farið hefur hluta­bréfa­verð Icelandair hækkað um fimm af hundraði en núver­andi flugáætlun félagsins gerir ráð fyrir að þoturnar verði komnar í loftið í byrjun janúar nk. Grein Frétta­blaðsins byggir á frétt Reuters en þar segir í fyrir­sögn að evrópsk flug­mála­yf­ir­völd muni í fyrsta lagi aflétta kyrr­setn­ingu þotanna í janúar.

Í Noregi er líka fylgst grannt með gangi mála hjá Boeing enda er Norwegian flug­fé­lagið með átján MAX þotur í flota sínum. Í frétt hins norska Finansa­visen í morgun, sem byggir á sömu heimild og frétt Reuters, segir að MAX þoturnar verði í fyrsta lagi samþykktar á ný í janúar og með frétt­inni birtist mynd af þotu Norwegian. Gengi hluta­bréfa í norska flug­fé­laginu lækkaði um nærri fimm prósent í morgun en hefur aðeins rétt úr kútnum og nemur lækkun dagsins 2,5 prósentum þegar viðskipta­dag­urinn er hálfn­aður í Ósló.

Ummælin sem frétt Reuters byggði á voru höfð eftir Patrick Ky, yfir­manni evrópsku flugör­ygg­is­stofn­un­ar­innar, sem sagði að það myndu líklega aðeins líða nokkrar vikur, en ekki mánuðir, frá því að banda­rísk flug­mála­yf­ir­völd aflétta kyrr­setn­ingu MAX þotanna og þar til að slíkt hið sama yrði gert í Evrópu. “Fyrir mitt leyti þá verður þetta í byrjun næsta árs, ef allt gengur að óskum. Miðað við það sem fyrir liggur í dag þá eru tilrauna­flug á dagskrá um miðjan desember sem þýðir að ákvörðun um endur­komu vélanna í janúar er á okkar borði,” sagði Patrick Ky á fundi með banda­rískum koll­egum sínum á föstudag.

Wall Street Journal er einn þeirra fjöl­miðla sem sagði frá þessu í gær. Í frétt blaðsins segir að orð Ky megi túlka þannig að evrópsk og banda­rísk flug­mála­yf­ir­völd verði ekki samstíga í að aflétta flug­banninu en vonir standa til að banda­rísk flug­félög geti tekið vélarnar í notkun strax eftir áramót. Engu að síður hefur Sout­hwest flug­fé­lagið tekið þoturnar úr umferð fram í miðjan febrúar og það hefur Air Canada líka gert. Í Wall Street Journal er fjög­urra prósenta lækkun hluta­bréfa í Boeing í gær rakin til fyrr­nefndra ummæla Patrick Ky.

Gengi bréfa í ferða­skrif­stofu­veldinu TUI hefur líka tekið dýfu í dag og lækkað um sex af hundraði. Samkvæmt Bloom­berg skrifast niður­sveiflan á nýja grein­ingu Morgan Stanley sem telur að kyrr­setn­ingin á MAX þotunum muni reynast TUI dýrari en ráð var fyrir gert. Flug­félag TUI samsteyp­unnar var með fimmtán MAX þotur í rekstri þegar flug­bannið var sett á um miðjan mars.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista