Fjárfestar bregðast mismunandi við MAX fréttum

Hlutabréf Icelandair hefur hækkað um fimm af hundraði í morgun sem líklega má rekja til frétta af mögulegri endurkomu MAX þotanna í janúar. Sú niðurstaða ætti að koma vel fyrir flugfélögin Norwegian og TUI en samt hefur hlutabréfaverð þeirra lækkað umtalsvert frá opnun markaða í dag.

MAX þotur við verksmiðjur Boeing í Washington fylki í Bandaríkjunum. MYND: SOUNDERBRUCE / CREATIVECOMMONS 4.0)

„Evrópsk flugmálayfirvöld gera ráð fyrir því að Boeing 737 MAX vélarnar verði komið í loftið að nýju í janúar,“ segir í frétt sem Fréttablaðið birti í morgunsárið. Segja má á þetta séu fyrstu jákvæðu fréttirnir sem berast af hinum kyrrsettu Boeing flugvélum um langt skeið. Í kjölfarið hefur hlutabréfaverð Icelandair hækkað um fimm af hundraði en núverandi flugáætlun félagsins gerir ráð fyrir að þoturnar verði komnar í loftið í byrjun janúar nk. Grein Fréttablaðsins byggir á frétt Reuters en þar segir í fyrirsögn að evrópsk flugmálayfirvöld muni í fyrsta lagi aflétta kyrrsetningu þotanna í janúar.

Í Noregi er líka fylgst grannt með gangi mála hjá Boeing enda er Norwegian flugfélagið með átján MAX þotur í flota sínum. Í frétt hins norska Finansavisen í morgun, sem byggir á sömu heimild og frétt Reuters, segir að MAX þoturnar verði í fyrsta lagi samþykktar á ný í janúar og með fréttinni birtist mynd af þotu Norwegian. Gengi hlutabréfa í norska flugfélaginu lækkaði um nærri fimm prósent í morgun en hefur aðeins rétt úr kútnum og nemur lækkun dagsins 2,5 prósentum þegar viðskiptadagurinn er hálfnaður í Ósló.

Ummælin sem frétt Reuters byggði á voru höfð eftir Patrick Ky, yfirmanni evrópsku flugöryggisstofnunarinnar, sem sagði að það myndu líklega aðeins líða nokkrar vikur, en ekki mánuðir, frá því að bandarísk flugmálayfirvöld aflétta kyrrsetningu MAX þotanna og þar til að slíkt hið sama yrði gert í Evrópu. “Fyrir mitt leyti þá verður þetta í byrjun næsta árs, ef allt gengur að óskum. Miðað við það sem fyrir liggur í dag þá eru tilraunaflug á dagskrá um miðjan desember sem þýðir að ákvörðun um endurkomu vélanna í janúar er á okkar borði,“ sagði Patrick Ky á fundi með bandarískum kollegum sínum á föstudag.

Wall Street Journal er einn þeirra fjölmiðla sem sagði frá þessu í gær. Í frétt blaðsins segir að orð Ky megi túlka þannig að evrópsk og bandarísk flugmálayfirvöld verði ekki samstíga í að aflétta flugbanninu en vonir standa til að bandarísk flugfélög geti tekið vélarnar í notkun strax eftir áramót. Engu að síður hefur Southwest flugfélagið tekið þoturnar úr umferð fram í miðjan febrúar og það hefur Air Canada líka gert. Í Wall Street Journal er fjögurra prósenta lækkun hlutabréfa í Boeing í gær rakin til fyrrnefndra ummæla Patrick Ky.

Gengi bréfa í ferðaskrifstofuveldinu TUI hefur líka tekið dýfu í dag og lækkað um sex af hundraði. Samkvæmt Bloomberg skrifast niðursveiflan á nýja greiningu Morgan Stanley sem telur að kyrrsetningin á MAX þotunum muni reynast TUI dýrari en ráð var fyrir gert. Flugfélag TUI samsteypunnar var með fimmtán MAX þotur í rekstri þegar flugbannið var sett á um miðjan mars.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista