Engir fundir með WOW air síðan í ágúst

Lögmaður hins nýja WOW air segir áform um jómfrúarflug í október ennþá standa. Blaðafulltrúi flugmálayfirvalda í Dulles segir ekkert hafa gerst í málinu þeirra megin frá fundi með forsvarsfólki endurreisnar flugfélagsins í sumarlok.

Mynd: London Stansted

Nú eru fjórar vikur liðnar frá því að aðstoðarmenn Michele Roosevelt Edwards, áður Michele Ballarin, boðuðu íslenska fjölmiðla til fundar á Hótel Sögu með stuttum fyrirvara. Á blaðamannafundinum tilkynnti Edwards um kaup sín á vörumerki WOW air og ýmsu öðru úr þrotabúi félagsins. Jafnframt kom það fram í máli hennar að WOW air myndi á ný hefja áætlunarflug milli Íslands og Dulles flugvallar, í nágrenni við Washington borg, í október.

Eftir blaðamannafundinn, þann 6. september, fengust þau svör frá Páli Ágústi Ólafssyni, lögmanni Edwards, að miðasala myndi hefjast vikuna eftir. Það gekk ekki eftir og ennþá er miðasala ekki hafin. Eina breytingin á heimasíðu flugfélagsins er sú að tilkynning um gjaldþrot gamla WOW air hefur verið fjarlægð og í staðinn er þar að finna vörumerki flugfélagsins.

Túristi hefur árangurslaust reynt að fá upplýsingar um gang mála hjá þeim Páli Ágústi og Gunnari Steini Pálssyni, almannatengli WOW air. Vísir hefur það hins vegar eftir Páli Ágústi í dag að áform um jómfrúarflug í október standi óbreytt og að „tæknimenn vinni nú hörðum höndum að því að fá lénið afhent svo hægt sé að setja upp heimasíðuna svo að hægt sé að hefja miðasölu.“ Af þeim orðum að dæma þá virðist sem kaupendur heimasíðu WOW air hafi ekki fengið afnot af lénum við kaupin.

Áreiðanlegar heimildir herma að hið nýja WOW air hafi ekki ennþá sótt um afgreiðslutíma fyrir áætlunarflug milli Íslands og Bandaríkjanna. Og blaðafulltrúi flugmálayfirvalda í Washington segir í samtali við Túrista að engin hreyfing hafi verið á málinu þeirra megin frá því að Ballarin og samstarfsfólk hennar fundaði með fulltrúum Dulles flugvallar í ágúst síðastliðnum.