Fljúga ekki fleiri Íslendingum til Slóveníu

Flugfélagið Adria Airways átti að flytja farþega Heimsferða til Ljubliana á morgun og aftur í lok mánaðar og næsta vor. Stjórnendur félagsins óskuðu eftir gjaldþrotaskiptum í byrjun vikunnar. Spænskt flugfélag fyllir í skarðið.

Frá Ljubljana í Slóveníu. Mynd: Martino Pietropoli / Unsplash

Þau eru nokkur evrópsku flugfélögin sem hafa fallið síðustu misseri og nú síðast var það slóvenska flugfélagið Adria Airways sem skellti í lás. Þar með sjá Slóvenar að baki stærsta flugfélagi landsins og því umsvifamesta í flugi til og frá höfuðborginni Ljubljana. Adria Airways var þó ekki aðeins stórtækt í áætlunarflugi til og frá heimalandinu heldur sinnti félagið líka leiguflugi þaðan fyrir innlendar og erlendar ferðaskrifstofur.

Á morgun var til að mynda ætlunin að félagið myndi fljúga hingað hópi Slóvena og ferja nærri fulla vél af Íslendingum til Ljubliana á bakaleiðinni. Íslensku ferðalangarnir voru væntanlegir heim með Adria Airways á sunnudaginn og slóvenski hópurinn átti þá að halda af landi brott. Spænskt leiguflugfélag hefur nú tekið þetta verkefni að sér og því verður ekki breyting á ferðatilhöguninni. Að sögn Tómasar J. Gestssonar, forstjóra Heimsferða, þá er núna unnið að því, í samvinnu við samstarfsaðila í Slóveníu, að finna annað flugfélag fyrir næstu Ljubljanaferð Heimsferða sem er á dagskrá 25. október nk. Tómas segir að öllum farþegum morgundagsins hafi verið gert viðvart um breytingarnar en hliðra þurfti flugtímum um eina klukkustund.

Samstarfs Heimsferða og slóvenskra ferðaskipuleggjenda hefur verið á boðstólum síðustu ár á vorin og aftur á haustin og það sést greinilega í hóteltölfræði Hagstofunnar að fjöldi slóvenskra hótelgesta hér á landi nær hámarki í kringum þessar ferðir, þ.e. í apríl og október.

Slóvensk stjórnvöld hafa gefið út að evrópskar reglur banni verulegan opinberan stuðning við rekstur flugfélaga og því hafi ekki verið hægt að koma Adria Airways til bjargar. Á sama tíma hafa ráðamenn í Slóveníu gagnrýnt eigendur flugfélagsins fyrir óábyrgan rekstur en Adria Airways var í opinberri eigu fram til ársins 2016 en þá var það selt til þýsks fjárfestingarsjóðs. Nýir eigendur byrjuðu hins vegar á því að selja flugflotann og endurleigja á ný. Um leið versnaði reksturinn samkvæmt því sem segir í frétt Reuters.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista