Frá WOW til Icelandair og núna til WAB

Fyrrum yfirmaður leiðakerfis WOW air stoppaði stutt hjá Icelandair.

Mynd: Isavia

Daníel Snæbjörnsson fór um árabil fyrir leiðakerfi WOW air en í kjölfar gjaldþrots félagsins réði hann sig til starfa hjá Icelandair. Þar hluti af teymi sem ber ábyrgð á flugáætlun og vali á áfangastöðum þess flugfélags líkt og Túristi greindi frá í júní. Daníel hefur hins vegar nú þegar sagt upp starfi sínu hjá Icelandair. Það staðfestir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi félagsins, í samtali við Túrista en hún segir Daníel þó enn við störf hjá Icelandair enda bundinn af ráðningarsamningi sínum.

Ásdís vill ekkert segja um hvert Daníel er á förum en samkvæmt áreiðanlegum heimildum Túrista þá hyggst hann ganga til liðs við þann hóp sem nú leggur drög að stofnun flugfélagsins sem kennt er við WAB. Þar hittir Daníel fyrir fyrrum samstarfsmenn sína í framkvæmdastjórn WOW air þá Svein Inga Steinþórsson og Arnar Má Magnússon.

Þeir þrír voru jafnframt allir hluti af þeim hópi sem koma átti að endurreisn WOW air sem Skúli Mogensen boðaði nokkrum dögum eftir gjaldþrotið í lok mars.

Þess ber að geta að Túrista tókst ekki að fá viðbrögð við þessum vistaskiptum hjá Daníel sjálfum né Sveini Inga hjá WAB.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista