„Fyrst og fremst viður­kenning á starfi Íslenska ferðaklasans”

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans, var á dögunum skipuð í stjórn alþjóðlegra klasasamtaka. Hún segir færri ferðamenn kallar á breyttar áherslun en tækifærin séu gríðarleg enda landið gjöfult af náttúruauðlindum og hugvit fólksins sterkt.

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans.

Megin­til­gangur klasa er að efla samkeppn­is­hæfni þess geira sem um ræðir, hlúa að nýsköpun og stuðla að aukinni verð­mæta­sköpun. Íslenski ferðaklasinn starfar samkvæmt þessu en hann var settur á lagg­irnar árið 2015.  Það er Ásta Kristín Sigur­jóns­dóttir sem veitir honum forstöðu og hún tekur nú sæti í stjórn alþjóð­legu klasa­sam­tak­anna TCI-network. Túristi lagði nokkrar spurn­ingar fyrir Ástu Kristínu um þann vegs­auka og starf­semi klasans.

Hvað þýðingu hefur stjórn­ar­kjörið fyrir íslenska ferðaklasann?
Þetta er fyrst og fremst viður­kenning á starfi Íslenska ferðaklasans. Við vinnum í takt við ákveðna klasa­hug­mynda­fræði og það er tekið eftir því á alþjóð­legum vett­vangi að okkur hefur tekist að byggja upp sterkan vett­vang meðal aðilda­fé­laga okkar. Íslenskt atvinnulíf er þekkt á erlendri grundu fyrir að vera skil­virkt, frjótt og nýskap­andi og í þeim öra vexti sem ferða­þjón­ustan hefur verið í þá þekkja enn fleiri áfanga­staðinn Ísland og fyrir hvað hann stendur. Það hjálpar auðvitað til að hafa hér sterkar stoðir og góða ímynd sem aðilar um allan heim hafa áhuga á að læra af, tengja við og vinna með okkur.

En fyrir þig sjálfa?
Þetta er mikill heiður og ég tek auðmjúk við þessu hlut­verki. Það eitt að vinna náið með því fólki sem lagði grunninn að hugmynda­fræð­inni er frábær tilfinning og ekki víst að ég gæti beðið um mikið meira á mínu faglega sviði. Þó svo ég brenni fyrir ferða­þjón­ustu og vil sjá hana dafna þá koma allar atvinnu­greinar saman þessum klasa­vett­vangi. Nú verður það mitt hlut­verk að laða til okkar öfluga klasa og fá þá í lið með okkur því saman eru við miklu sterkari. Hér heima eigum við öflugan Sjáv­ar­klasa, Jarðvarma/orkuklasa, Fjár­tækniklasa, og Álklasa. Síðan eru að byggjast upp fleiri sem ég myndi svo gjarnan vilja styðja við bakið á með þeirri hugmynda­fræði og verk­færum sem nýst hafa best í að byggja upp bætta samkeppn­is­hæfni með nýsköpun og vöru­þróun.

Ferðaklasinn verður fimm ára á næsta ári. Hverjir eru hápunkt­arnir í starfi ykkar hingað til?
Það hafa verið fjölda­margir skemmti­legir viðburðir og hápunkt­arnir það margir að það er áskorun að velja á milli. Bara það eitt að við höfum öðlast viður­kenn­ingu sem vett­vangur sem leitað er til er stór áfangi. Þekking á hvað klasi er og hvernig við störfum er að verða æ útbreiddari og með því kemur stað­festa og tiltrú. Við erum stolt af okkar mörgu samstarfs­verk­efnum og til að týna einhver til þá má nefna hvatn­inga­verk­efnið okkar og festu um ábyrga ferða­þjón­ustu sem yfir 350 fyrir­tæki eru þátt­tak­endur í.
Eins verður að nefna að í fyrra tókum við svo yfir rekstur á Húsi ferðaklasans á Grand­anum og þar getum við boðið félögum okkar uppá skrif­stofu- og fundarað­stöðu. Við höldum líka vinnu­stofur, viðburði af öllum stærðum og gerðum og bjóðum auðvitað uppá besta kaffið í bænum. Í húsnæðinu hafa nú rúmlega þrjátíu frum­kvöðlar og fyrir­tæki í ferða­þjón­ustu aðstöðu í skap­andi og skemmti­legu vinnu­um­hverfi í nánum tengslum við greinina.

Nú eru aðrir tíma í ferða­þjón­ustu því ferða­fólki fækkar. Kallar það á breyttar áherslur í vali á verk­efnum fyrir ferðaklasann?
Já, það gerir það. Við erum meira að leggja áherslu á að vinna með starf­andi fyrir­tækjum í að skil­greina sinn tilgang og markmið. Við veltum því upp hvar þurfi að taka til, með hvaða aðferðum, skerpum fókusinn og vinnum með nýsköpun. Þetta gerum við mark­visst í gegnum verk­efnin okkar og með þeim viðburðum sem við bjóðum uppá. Breytt neyslu­hegðun fólks sem ferðast hefur áhrif á fyrir­tækin en það er mikil­vægt fyrir þau að vera skrefi á undan og leiða breyt­inguna, ekki bregðast eingöngu við. Þannig höfum við á Íslandi gríð­arleg tæki­færi enda er landið okkar gjöfult af nátt­úru­auð­lindum og hér er sterkt hugvit. Fyrir­tækin eru mark­visst að vinna í átt að sjálf­bærni og æ fleiri skilja tilgang og mikil­vægi þess að stunda ábyrga viðskipta­hætti byggða á gæða þjón­ustu og vörum.

Hvaða verk­efni eru helst á döfinni núna?
Við erum margskonar verk­efni í samstarfi við öfluga aðila. Má þar nefna Ratsjánna, í samstarfi við Nýsköp­un­ar­mið­stöð Íslands og Virkjum hugvitið, með stuðn­ingi frá Atvinnu- og nýsköp­un­ar­ráðu­neytinu. Á síðasta ári stóðum við, ásamt Ferða­mála­stofu, fyrir ráðstefn­unni Iceland Travel Tech í Hörpu og munum við endur­taka leikinn þann 8.maí á næsta ári. Áfram verður lögð mikil áhersla á vinnu­stofur og verk­færi sem tengjast verk­efninu Ábyrg ferða­þjón­usta en Samtök ferða­þjón­ust­unnar koma inn í fram­kvæmda­hluta þess verk­efnis með meiri þunga en áður. Ásamt Matar­auði Íslands og Matís komum við svo að verk­efninu Nordic Food in Tourism fyrir norrænu ráðherra­nefndina. Að lokum má nefna að nýverið kynnti ráðherra ferða­mála metn­að­ar­fulla fram­tíð­arsýn fyrir greinina sem byggð er á sjálf­bærri þróun. Til þess að fram­tíð­ar­sýnin nái fram að ganga þurfa fyrir­tækin að ganga í takt og tengja við stefnuna. Þar er því mikilvæg brúar­smíði og tengi­hlut­verk fyrir Ferðaklasann.