Samfélagsmiðlar

„Fyrst og fremst viðurkenning á starfi Íslenska ferðaklasans“

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans, var á dögunum skipuð í stjórn alþjóðlegra klasasamtaka. Hún segir færri ferðamenn kallar á breyttar áherslun en tækifærin séu gríðarleg enda landið gjöfult af náttúruauðlindum og hugvit fólksins sterkt.

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans.

Megintilgangur klasa er að efla samkeppnishæfni þess geira sem um ræðir, hlúa að nýsköpun og stuðla að aukinni verðmætasköpun. Íslenski ferðaklasinn starfar samkvæmt þessu en hann var settur á laggirnar árið 2015.  Það er Ásta Kristín Sigurjónsdóttir sem veitir honum forstöðu og hún tekur nú sæti í stjórn alþjóðlegu klasasamtakanna TCI-network. Túristi lagði nokkrar spurningar fyrir Ástu Kristínu um þann vegsauka og starfsemi klasans.

Hvað þýðingu hefur stjórnarkjörið fyrir íslenska ferðaklasann?
Þetta er fyrst og fremst viðurkenning á starfi Íslenska ferðaklasans. Við vinnum í takt við ákveðna klasahugmyndafræði og það er tekið eftir því á alþjóðlegum vettvangi að okkur hefur tekist að byggja upp sterkan vettvang meðal aðildafélaga okkar. Íslenskt atvinnulíf er þekkt á erlendri grundu fyrir að vera skilvirkt, frjótt og nýskapandi og í þeim öra vexti sem ferðaþjónustan hefur verið í þá þekkja enn fleiri áfangastaðinn Ísland og fyrir hvað hann stendur. Það hjálpar auðvitað til að hafa hér sterkar stoðir og góða ímynd sem aðilar um allan heim hafa áhuga á að læra af, tengja við og vinna með okkur.

En fyrir þig sjálfa?
Þetta er mikill heiður og ég tek auðmjúk við þessu hlutverki. Það eitt að vinna náið með því fólki sem lagði grunninn að hugmyndafræðinni er frábær tilfinning og ekki víst að ég gæti beðið um mikið meira á mínu faglega sviði. Þó svo ég brenni fyrir ferðaþjónustu og vil sjá hana dafna þá koma allar atvinnugreinar saman þessum klasavettvangi. Nú verður það mitt hlutverk að laða til okkar öfluga klasa og fá þá í lið með okkur því saman eru við miklu sterkari. Hér heima eigum við öflugan Sjávarklasa, Jarðvarma/orkuklasa, Fjártækniklasa, og Álklasa. Síðan eru að byggjast upp fleiri sem ég myndi svo gjarnan vilja styðja við bakið á með þeirri hugmyndafræði og verkfærum sem nýst hafa best í að byggja upp bætta samkeppnishæfni með nýsköpun og vöruþróun.

Ferðaklasinn verður fimm ára á næsta ári. Hverjir eru hápunktarnir í starfi ykkar hingað til?
Það hafa verið fjöldamargir skemmtilegir viðburðir og hápunktarnir það margir að það er áskorun að velja á milli. Bara það eitt að við höfum öðlast viðurkenningu sem vettvangur sem leitað er til er stór áfangi. Þekking á hvað klasi er og hvernig við störfum er að verða æ útbreiddari og með því kemur staðfesta og tiltrú. Við erum stolt af okkar mörgu samstarfsverkefnum og til að týna einhver til þá má nefna hvatningaverkefnið okkar og festu um ábyrga ferðaþjónustu sem yfir 350 fyrirtæki eru þátttakendur í.
Eins verður að nefna að í fyrra tókum við svo yfir rekstur á Húsi ferðaklasans á Grandanum og þar getum við boðið félögum okkar uppá skrifstofu- og fundaraðstöðu. Við höldum líka vinnustofur, viðburði af öllum stærðum og gerðum og bjóðum auðvitað uppá besta kaffið í bænum. Í húsnæðinu hafa nú rúmlega þrjátíu frumkvöðlar og fyrirtæki í ferðaþjónustu aðstöðu í skapandi og skemmtilegu vinnuumhverfi í nánum tengslum við greinina.

Nú eru aðrir tíma í ferðaþjónustu því ferðafólki fækkar. Kallar það á breyttar áherslur í vali á verkefnum fyrir ferðaklasann?
Já, það gerir það. Við erum meira að leggja áherslu á að vinna með starfandi fyrirtækjum í að skilgreina sinn tilgang og markmið. Við veltum því upp hvar þurfi að taka til, með hvaða aðferðum, skerpum fókusinn og vinnum með nýsköpun. Þetta gerum við markvisst í gegnum verkefnin okkar og með þeim viðburðum sem við bjóðum uppá. Breytt neysluhegðun fólks sem ferðast hefur áhrif á fyrirtækin en það er mikilvægt fyrir þau að vera skrefi á undan og leiða breytinguna, ekki bregðast eingöngu við. Þannig höfum við á Íslandi gríðarleg tækifæri enda er landið okkar gjöfult af náttúruauðlindum og hér er sterkt hugvit. Fyrirtækin eru markvisst að vinna í átt að sjálfbærni og æ fleiri skilja tilgang og mikilvægi þess að stunda ábyrga viðskiptahætti byggða á gæða þjónustu og vörum.

Hvaða verkefni eru helst á döfinni núna?
Við erum margskonar verkefni í samstarfi við öfluga aðila. Má þar nefna Ratsjánna, í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Virkjum hugvitið, með stuðningi frá Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu. Á síðasta ári stóðum við, ásamt Ferðamálastofu, fyrir ráðstefnunni Iceland Travel Tech í Hörpu og munum við endurtaka leikinn þann 8.maí á næsta ári. Áfram verður lögð mikil áhersla á vinnustofur og verkfæri sem tengjast verkefninu Ábyrg ferðaþjónusta en Samtök ferðaþjónustunnar koma inn í framkvæmdahluta þess verkefnis með meiri þunga en áður. Ásamt Matarauði Íslands og Matís komum við svo að verkefninu Nordic Food in Tourism fyrir norrænu ráðherranefndina. Að lokum má nefna að nýverið kynnti ráðherra ferðamála metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir greinina sem byggð er á sjálfbærri þróun. Til þess að framtíðarsýnin nái fram að ganga þurfa fyrirtækin að ganga í takt og tengja við stefnuna. Þar er því mikilvæg brúarsmíði og tengihlutverk fyrir Ferðaklasann.

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …