Fyrstu fimm stjörnu hótelin

The Reatreat og Grímsborgir eru fyrstu hótelin sem fá fimm stjörnur samkvæmt gæðavottunarkerfi Ferðamálastofu.

The Retreat við Bláa lónið. Mynd: Bláa lónið

Í fyrsta skipti hafa Íslensk hótel nú hlotið fimm stjörnu flokkun samkvæmt viðurkenndu hótelflokkunarkerfi. Um er að ræða The Retreat Bláa Lónsins, sem fær fimm stjörnu Superior flokkun og Hótel Grímsborgir í Grímsnesi sem er fimm stjörnu hótel samkvæmt því sem segir í tilkynningu frá Ferðamálastofu.

Þar segir jafnframt að hótelin séu vottuð samkvæmt gæðakerfi Vakans sem er eina viðurkennda hótelflokkunarkerfið hérlendis. Samkvæmt reglugerð um gististaði er óheimilt að auðkenna sig með stjörnum eða öðrum merkjum sem gefa til kynna hvers konar gæðaflokkun nema að undangenginni formlegri gæðaúttekt þriðja aðila sem viðurkennd er af stjórnvöldum.

„Vakinn er gæða- og umhverfisvottunarkerfi sem Ferðamálastofa stýrir en markmið þess er að efla gæði, öryggi og umhverfisvitund í ferðaþjónustu á Íslandi ásamt því að byggja upp samfélagslega ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja. Gæðaviðmið Vakans fyrir hótel byggja á gæðaviðmiðum frá evrópska Hotelstars kerfinu sem leitt er af Hotrec, regnhlífarsamtökum hótela og veitingahúsa í Evrópu. Á heimasíðu Vakans má finna nánari upplýsingar um gæðakerfið og lista yfir þau hótel og gististaði sem uppfylla kröfur til að merkja sig stjörnugjöf,“ segir í tilkynningu.