Gera ekki ráð fyrir MAX þotunum fyrr en í febrúar

Stjórnendur Southwest flugfélagsins hafa ákveðið að gera breytingar á flugáætluninni þar sem þeir telja ekki líklegt að MAX þotur félagsins nýtist fyrr en í fyrsta lagi þann 8. febrúar. Norwegian reiknar fyrst með þotunum þegar sumaráætlunin hefst í lok mars

MAX þotur við verksmiðjur Boeing í Washington fylki í Bandaríkjunum. MYND: SOUNDERBRUCE / CREATIVECOMMONS 4.0)

Þegar allar þotur af gerðinni Boeing MAX voru kyrrsettar um heim allan, í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa, var bandaríska flugfélagið Southwest með 31 MAX farþegavél í flota sínum. Ekkert annað flugfélag hefur tekið jafn margar flugvélar af þessari gerð í notkun og gerður áætlanir stjórnenda félagsins ráð fyrir að þoturnar yrðu komnar aftur í loftið þann fimmta janúar. Í gær gáfu þeir hins vegar út að nú væri horft til 8. febrúar. Þar með þarf félagið að aflýsa töluvert af ferðum en þó hlutfallslega fáum þegar horft er til heildarumsvifa félagsins. Að jafnaði stendur Southwest fyrir um fjögur þúsund brottförum á degi hverjum og er reiknað með lengri bið eftir Boeing þotunum verði til þess að fella þurfi niður um 175 ferðir á dag í janúar og byrjun febrúar.

Hið norska Norwegian er það evrópska flugfélag sem er komið með flestar MAX þotur. Hjá því félagi gerir núverandi vetraráætlun, sem lýkur í enda mars, hins vegar ekki ráð fyrir neinum MAX þotum. Flugfréttasíðan Checkin hefur það eftir talsmanni Norwegian að ef flugbanninu verði aflétt fyrir þann tíma þá verði MAX þoturnar settar í umferð á ný.

Hjá Icelandair er ennþá gert ráð fyrir að MAX þotur verði farnar að flytja farþega félagsins í byrjun næsta árs.