Gríðarlegur samdráttur í Íslandsferðum Bandaríkjamanna

Í september flugu fimmtungi færri erlendir ferðamenn af landi brott en á sama tíma í fyrra. Mestu munar um hátt í helmingi færri Bandaríkjamenn.

Ferðamenn við Námaskarð. Mynd: Iceland.is

Það voru nærri 184 þúsund útlendingar sem heimsóttu Ísland í síðasta mánuði eða 48 þúsund færri en í september í fyrra. Hlutfallslega nemur samdrátturinn 20,7 prósentum samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Megin skýringin á þessari miklu niðursveiflu er að finna í einskonar hruni í ferðum Bandaríkjamanna til Íslands. Í september í fyrra voru bandarísku ferðamennirnir nefnilega rúmlega 82 þúsund talsins en rétt um 47 þúsund að þessu sinni. Munurinn er 43 prósent á milli septembermánaða.
Næst mesti samdrátturinn var í ferðum Kanadamanna en aftur á móti fjölgaði ferðafólki frá Noregi, Póllandi og eins frá þjóðum sem ekki eru taldar sérstaklega. Fjöldi Japana og íbúa Hong Kong stóð í stað eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Þess ber að geta að fjöldi gistinátta útlendinga hefur ekki lækkað eins hratt og fjöldi ferðamanna sem gefur til kynna að fólk stoppi nú lengur á landinu. Eins má gera ráð fyrir að skekkjan í ferðamannatalningunni í Leifsstöð hafi minnkað eftir fall WOW air.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista