Hætta Íslandsflugi frá Madríd

Vetrarflug milli Íslands og höfuðborgar Spánar leggst af eftir áramót en þessi samgöngubót hefur haft jákvæð áhrif á ferðamannastrauminn hingað síðustu vetur.

Frá Madríd. Mynd: Jorge Fernández Salas / Unsplash

Fyrir þremur árum síðan hóf norska flugfélagið Norwegian að fljúga þotum sínum hingað frá Madríd og Barcelona yfir vetrarmánuðina og í kjölfarið margfaldaðist fjöldi spænskra ferðamanna hér á landi yfir kaldasta hluta ársins. Síðastliðinn vetur komu hingað 25 þúsund Spánverjar en þeir voru rétt um sjö þúsund veturinn áður en Norwegian hóf að fljúga hingað frá tveimur fjölmennustu borgum Spánar.

Þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun þá hafa stjórnendur Norwegian ákveðið að leggja Íslandsflugið niður frá Madríd í byrjun janúar næstkomandi. Talsmaður flugfélagsins segir þetta vera í samræmi við stefnumörkun stjórnenda þess að gera reksturinn arbærann á ný og þar með sé leiðakerfið sífellt til skoðunar. „Vegna þessa verður flugleiðin milli Madríd og Keflavíkur ekki starfrækt lengur.“

Norwegian hefur verið eina flugfélagið með vetrarferðir hingað frá höfuðborg Spánar en á sumrin bætast svo við ferðir Iberia Express og Icelandair frá Madríd. Samkvæmt flugáætlun þess fyrrnefnda þá er gert ráð fyrir tveimur til þremur ferðum í viku frá miðjum júní og fram í enda september. Fyrsta ferð Icelandair til Madrídar er á dagskrá í byrjun maí og sú síðasta í lok september og verða brottfarirnar þrjár í viku á þessu tímabili.

Þó þotur Norwegian hætti að fljúga hingað frá Madríd þá verða flugvélar þess áfram áberandi á Keflavíkurflugvelli. Norska lággjaldaflugfélagið heldur nefnilega áfram Íslandsflugi frá Ósló, Alicante og Barcelona allt árið um kring. Í vetur bætist svo við flug frá Tenerife og Las Palmas og á sumrin er Norwegian jafnframt með ferðir hingað frá Bergen.