Hafa úthlutað Icelandair aðstöðu í nýju flugstöðinni

Eftir eitt ár verður ný flugstöð við Schönefeld flugvöll í Berlín loks tekin í notkun. Farþegar Icelandair munu nýta Terminal 1 en farþegum félagsins í Berlín hefur fjölgað umtalsvert að undanförnu.

Nú er 8 ár liðin frá því að upphaflega stóð til að taka nýju flugstöðina í Berlín í gagnið. Mynd: Berlin Airport

Það voru lengi vel þrír alþjóðlegir flugvellir í Berlín. Tempelhof var lokað fyrir ellefu árum síðan og til stóð að leggja niður Tegel þegar reynsla væri komin á nýja flugstöð við Schönefeld flugvöllinn. Vígsla á henni átti að fara fram haustið 2011 en af því varð ekki þar sem mannvirkin stóðust ekki skoðun brunaeftirlits borgarinnar. Ýmsir fleiri gallar uppgötvuðust og síðan hefur opnuninni endurtekið verið slegið á frest. Núna er hins vegar stefnt að því að fyrstu farþegarnir gangi inn í nýju flugstöðina í október á næsta ári.

Þýsk flugmálayfirvöld eru af þessum sökum farin að úthluta flugfélögum aðstöðu í flugstöðinni sem nefnd var Berlin Brandenburg Willy Brandt. Og gert er ráð fyrir Icelandair í Terminal 1 samkvæmt svari við fyrirspurn Túrista. Í þessum hluta flugstöðvarinnar verða líka flugfélögin easyJet og Lufthansa sem þýðir að farþegar Icelandair geta fundið tengiflug til fjölda margra áfangastaða innan Evrópu en Lufthansa flýgur þó aðeins innanlands frá Berlín.

Berlínarflug Icelandair má rekja til falls Airberlin haustið 2017. Því aðeins þremur dögum eftir að stjórnendur þýska flugfélagsins fóru fram á greiðslustöðvun tilkynnti Icelandair að félagið myndi hefja flug til Berlínar allt árið um kring. Fyrsta ferðin var farin í nóvember sama ár og þá flugu bæði íslensku flugfélögin til borgarinnar. Þotur WOW lentu í Schönefeld í austurhluta borgarinnar og Icelandair á Tegel sem er í vesturhlutanum.

Eftir gjaldþrot WOW air í lok mars þá er Icelandair eitt um áætlunarflug milli Íslands og þýsku höfuðborgarinnar. Þotur félagsins fljúga nú þangað oftar en áður og farþegunum hefur fjölgað umtalsvert. Þannig flutti Icelandair um 65 þúsund farþega milli Tegel og Keflavíkurflugvallar frá byrjun apríl til enda ágúst í ár. Það er aukning um 45 prósent samkvæmt útreikningum Túrista sem byggja á tölum frá þýskum flugmálayfirvöldum. Sambærileg gögn eru ekki opinber hér á landi.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista