Hafa úthlutað Icelandair aðstöðu í nýju flug­stöð­inni

Eftir eitt ár verður ný flugstöð við Schönefeld flugvöll í Berlín loks tekin í notkun. Farþegar Icelandair munu nýta Terminal 1 en farþegum félagsins í Berlín hefur fjölgað umtalsvert að undanförnu.

Nú er 8 ár liðin frá því að upphaflega stóð til að taka nýju flugstöðina í Berlín í gagnið. Mynd: Berlin Airport

Það voru lengi vel þrír alþjóð­legir flug­vellir í Berlín. Temp­elhof var lokað fyrir ellefu árum síðan og til stóð að leggja niður Tegel þegar reynsla væri komin á nýja flug­stöð við Schö­ne­feld flug­völlinn. Vígsla á henni átti að fara fram haustið 2011 en af því varð ekki þar sem mann­virkin stóðust ekki skoðun bruna­eft­ir­lits borg­ar­innar. Ýmsir fleiri gallar uppgötv­uðust og síðan hefur opnun­inni endur­tekið verið slegið á frest. Núna er hins vegar stefnt að því að fyrstu farþeg­arnir gangi inn í nýju flug­stöðina í október á næsta ári.

Þýsk flug­mála­yf­ir­völd eru af þessum sökum farin að úthluta flug­fé­lögum aðstöðu í flug­stöð­inni sem nefnd var Berlin Brand­en­burg Willy Brandt. Og gert er ráð fyrir Icelandair í Term­inal 1 samkvæmt svari við fyrir­spurn Túrista. Í þessum hluta flug­stöðv­ar­innar verða líka flug­fé­lögin easyJet og Luft­hansa sem þýðir að farþegar Icelandair geta fundið tengiflug til fjölda margra áfanga­staða innan Evrópu en Luft­hansa flýgur þó aðeins innan­lands frá Berlín.

Berlín­ar­flug Icelandair má rekja til falls Airberlin haustið 2017. Því aðeins þremur dögum eftir að stjórn­endur þýska flug­fé­lagsins fóru fram á greiðslu­stöðvun tilkynnti Icelandair að félagið myndi hefja flug til Berlínar allt árið um kring. Fyrsta ferðin var farin í nóvember sama ár og þá flugu bæði íslensku flug­fé­lögin til borg­ar­innar. Þotur WOW lentu í Schö­ne­feld í aust­ur­hluta borg­ar­innar og Icelandair á Tegel sem er í vest­ur­hlut­anum.

Eftir gjald­þrot WOW air í lok mars þá er Icelandair eitt um áætl­un­ar­flug milli Íslands og þýsku höfuð­borg­ar­innar. Þotur félagsins fljúga nú þangað oftar en áður og farþeg­unum hefur fjölgað umtals­vert. Þannig flutti Icelandair um 65 þúsund farþega milli Tegel og Kefla­vík­ur­flug­vallar frá byrjun apríl til enda ágúst í ár. Það er aukning um 45 prósent samkvæmt útreikn­ingum Túrista sem byggja á tölum frá þýskum flug­mála­yf­ir­völdum. Sambærileg gögn eru ekki opinber hér á landi.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista