Hlut­fall tengifar­þega ekki lægra í áraraðir

Icelandair hefur aldrei flutt fleiri farþega til Íslands en á sama tíma fækkar þeim sem nýta ferðir félagsins til að koma sér á milli Norður-Ameríku og Evrópu.

Mynd: Isavia

Allt frá falli WOW air hefur Icelandair haft þann háttinn á að upplýsa mánað­ar­lega hvernig farþega­hóp­urinn skiptist eftir því hvort fólk er á leið til eða frá Íslandi eða teljist til tengifar­þega. Út frá þessum gögnum má sjá að hlut­fall tengifar­þega, á þriðja ársfjórð­ungi, var aðeins 45 prósent. Leita þarf átta ár aftur í tímann til að finna álíka lágt hlut­fall tengifar­þega á þessum arðbær­asta fjórð­ungi ársins. Á árunum 2014 til 2017, þegar Icelandair skilaði metaf­komu, þá var vægi tengifar­þega á bilinu 55 til 58 prósent á þriðja ársfjórð­ungi eins og sjá má á línu­ritinu fyrir neðan.

Megin ástæðan fyrir þessari breyt­ingu er sú að stjórn­endur Icelandair hafa að undan­förnu lagt höfuð­áherslu á ferða­manna­mark­aðinn til Íslands. Og sú stefna var mörkuð að einhverju leyti áður en WOW air var gjald­þrota í lok mars. Það kom til að mynda fram í máli Evu Sóleyjar Guðbjörns­dóttur, fram­kvæmda­stjóra fjár­mála­sviðs Icelandair Group, á afkomufundi fyrir fyrsta fjórðung þessa árs, að mark­að­urinn fyrir tengiflug væri erfiður. „Við erum vilj­andi, út af krefj­andi aðstæðum á Via-markaði, að stýra tekju­mynd­un­inni inni á To og From,” sagði Eva Sóley í apríl. Og miðað við hvernig farþega­tölur Icelandair hafa þróast síðan þá er ljóst að áfram er fókusinn á farþega á leið til og frá Íslandi í stað þeirra sem aðeins milli­lenda.

Þessi krefj­andi samkeppni um farþega á leið á milli Evrópu og Norður-Ameríku hefur því dregið úr högginu sem fall WOW air var fyrir íslenska ferða­þjón­ustu þar sem Icelandair hefur sett Ísland í forgang. Hvort félagið breyti um kúrs á næstu miss­erum á eftir að koma í ljós en skyndi­legar breyt­ingar, t.d. veru­legur samdráttur í Atlants­hafs­flugi Norwegian, gætu orðið til þess félagið setji aftur kraft í tengiflugið. Þess háttar stefnu­breyting yrði áskorun fyrir íslenska ferða­þjón­ustu því eins og staðan er núna þá er ekki annað í kort­unum en umsvif erlendra flug­fé­laga á Kefla­vík­ur­flug­velli verði nær óbreytt næsta sumar. Og ennþá er óljóst hversu umsvifa­mikið hið nýja WOW air verður og sömu­leiðis flug­fé­lagið sem fyrrum stjórn­endur gamla WOW air eru með á teikni­borðinu.

Í ljósi þess hve vægi tengifar­þega hefur dregist saman hjá Icelandair má líka velta vöngum yfir því hvort flug­fé­lagið geti haldið úti eins viða­miklu leiða­kerfi og gert er í dag ef hlut­fall tengifar­þega hækkar ekki á ný. Því án fjölda farþega sem aðeins milli­lendir hér á landi þá er ekki endi­lega mögu­legt að halda úti heils­árs­flugi til jafn margra borga eða bjóða upp á tíðar ferðir yfir háanna­tímann. Vísbending um það er sú stað­reynd að sæta­nýt­ingin hjá Icelandair hefur dregist saman síðustu þrjá mánuði. Þróun fargjalda gæti þar líka haft sitt að segja en fyrir­tækið upplýsir ekki um hvernig þau hafa þróast fyrr en á næsta afkomufundi.

Hvernig farþega­skipt­ingin verður hjá Icelandair á næsta ári ræðst að miklu leyti af sumaráætlun félagsins. Hún hefur ekki ennþá verið kynnt með form­legum hætti en þó liggur fyrir að San Francisco og Kansas City detta út.

 

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista