Icelandair hagnast um 7,5 milljarða króna og gerir annað samkomulag við Boeing

Þriðji fjórðungur ársins er vanalega sá arbærasti hjá Icelandair enda nær hann yfir sumarmánuðina júlí og ágúst og svo september. Að þessu sinni var hagnaðurinn á fjórðungnum álíka og á sama tíma í fyrra.

Mynd: Icelandair

Hagnaður Icelandair nam 7,5 milljöðrum króna á þriðja ársfjórðungi samkvæmt tilkynningu sem félagið sendi nú í kvöld. Þetta er sama niðurstaða og í fyrir sama tímabil í fyrra. Þá þótti afkoman ekki standa undir væntingum enda nokkru minni hagnaður en árin á undan. Skýringin á lakari niðurstöðu var sögð hátt eldsneytis­verð og lækk­un farþega­tekna milli ára.

Núna litar kyrrsetning MAX þotanna uppgjörið en fram kemur í tilkynningu frá Icelandair að gengið hafi verið frá samkomulagi um skaðabætur frá Boeing í dag. Þetta er í annað skipti í haust sem þess háttar samkomulag er gert en ekki hefur verið gefið upp um hvaða upphæðir er að ræða.

„Góður árangur hefur náðst í rekstri Icelandair Group, þrátt fyrir að uppgjör fjórðungsins hafi litast verulega af áhrifum kyrrsetningar MAX vélanna. Sveigjanleiki í leiðakerfinu hefur gert okkur kleift að færa tíðni á milli áfangastaða og einbeita okkur að því að nýta flugflotann á arðbærum leiðum. Við höfum lagt áherslu á ferðamannamarkaðinn til Íslands að undanförnu til að mæta mikilli eftirspurn og munum halda því áfram. Íslensk ferðaþjónusta hefur notið góðs af þessari áherslubreytingu en við fluttum 30% fleiri farþega til landsins yfir háannatímann í ár en í fyrra,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningu.

Hann bætir því við að horfur fyrir árið 2019 hafa batnað og gerum við ráð fyrir talsverðum afkomubata á fjórða ársfjórðungi. „Grunnrekstur félagsins er að styrkjast, eiginfjárstaða nam rúmlega 62 milljörðum króna og lausafjárstaða tæplega 30 milljörðum króna í lok fjórðungsins. Við erum því vel í stakk búin til að ná markmiðum okkar um að bæta arðsemi félagsins á komandi misserum.“

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista