Icelandair tekur þátt í þróun rafflugvéla

Skrúfuflugvél sem knúin er rafmagni og dregur allt að fjögur hundruð kílómetra eru á teikniborðinu hjá sænsku nýsköpunarfyrirtæki. Að verkefninu koma nokkur af flugfélögum frændþjóðanna auk Icelandair.

Tölvuteikning af rafflugvél Hearts Aerospace sem norræn flugfélög og yfirvöld sameinast nú um þróun á.

Fimm norræn flugfélög, þar á meðal Icelandair, taka nú þátt þróun rafflugvéla sem ætlunin er að taka á loft innan nokkurra ára. Auk flugfélaganna þá koma flugmálayfirvöld í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi að verkefninu sem er fjármagnað af Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni.

Tæknin sem byggt er á kemur frá sænska fyrirtækinu Heart Aerospace en yfirlýst markmið forsvarsfólks þess er að koma rafflugvél í loftið árið 2025. Sú á að geta flogið allt að fjögur hundruð kílómetra með nítján farþega. Gangi það eftir gæti flugvélin drifið milli helstu innanlandsflugvallanna hér á landi en þó kannski tæplega milli Reykjavíkur og Egilsstaða en sú flugleið er um 380 kílómetrar.

Þetta norræna samstarfsverkefni nær þó ekki aðeins til flugvélarinnar sjálfrar því ætlunin er jafnframt að undirbúa staðal sem nær til allra innviða sem rafknúnar flugsamgöngur krefjast samkvæmt því sem segir á vef Rise, sænsku nýsköpunarmiðstöðvarinnar. Þar segir einnig að með tilkomu rafmagnsflugvéla gefist tækifæri á að efla flugsamgöngur milli minni staða og umferðin milli Norðurlanda takmarkist þá ekki nær eingöngu við flugferðir milli norræna höfuðborga.

Verkefninu er auk þess ætlað að leiða þróun rafflugvéla fyrir kaldara loftslag. „Á heimsvísu er unnið að hundruðum verkefna sem tengjast rafknúnum flugvélum en oft er litið fram hjá þeim áskorunum sem veðurfarið á Norðurlöndunum er. Til dæmis þegar kemur að rafhlöðum sem þota kalt loftslag og stuttar flugbrautir á minni byggðum,“ segir á vef Rise. Þar því jafnframt haldið fram að norræn yfirvöld og flugfélög séu í fararbroddi í aukinni sjálfbærni í flugrekstri.

TENGDAR GREINAR: Ólíku saman að (kolefnis)jafna

Nú getur þú stutt við bakið á öflugri Túrista