Icelandair þá eitt um Amer­íkuflugið í vetur

Nú liggur fyrir að fyrst um sinn mun hið endurreista WOW air einbeita sér að vöruflutningum. Þar með verður Icelandair eitt um farþegaflug vestur um haf næstu mánuði.

newyork loft Troy Jarrell
Þeir sem ætla til New York í vetur hafa aðeins úr ferðum Icelandair til JFK og Newark að velja. Mynd: Troy Jarrell / Unsplash

Í morgun var á dagskrá síðasta áætl­un­ar­ferð Delta flug­fé­lagsins frá Kefla­vík­ur­flug­velli til New York í ár. Félagið tekur svo upp þráðinn á ný í Íslands­fluginu þegar sumaráætl­unin hefst en þetta er í fyrsta sinn í nokkur ár sem banda­ríska flug­fé­lagið heldur ekki úti ferðum hingað allt árið um kring. Á sama tíma er ljóst að ekkert verður af farþega­flugi hins nýja WOW air til Washington borgar.

Í fréttum Rúv í dag var haft eftir Gunnari Steini Páls­syni, tals­manni Michele Ball­arin, að flug­fé­lagið fari í loftið innan nokk­urra vikna en að áherslan í fyrstu verði á frakt­flutn­inga milli Kefla­víkur og Washington. Þar með verður að teljast ólík­legt að Icelandair fái samkeppni í áætl­un­ar­flugi til Banda­ríkj­anna á komandi vetri því ennþá liggja ekki fyrir áætlanir þeirra sem vinna að stofnun flug­fé­lagsins sem hefur vinnu­heitið WAB. Þetta verður í fyrsta sinn síðan veturinn 2015–2016 sem Icelandair er eitt um reglu­legar ferðir milli Íslands og Norður-Ameríku.

Þessi staða hefur þó legið í loftinu því núna eru nærri tveir mánuðir frá blaða­manna­fundi Ball­arin á Grillinu þar sem hún boðaði endur­reisn WOW. Þá stóð til að miða­sala hæfist vikuna eftir en það gekk ekki eftir. Nýverið var jómfrú­ar­ferð­inni svo frestað frá október og fram í desember en núna liggur fyrir að það verða þá aðeins frakt um borð en ekki farþegar.

Hið uppruna­lega WOW air stundaði líka vöru­flutn­inga og þá í gegnum syst­ur­félag sitt Cargo Express. Samkvæmt tölum frá banda­rískum flug­mála­yf­ir­völdum þá var WOW með um fjórð­ungs hlut­deild í frakt­flutn­ingum í flugi milli Íslands og Banda­ríkj­anna í fyrra. Þrjú af hverjum fjórum tonnum sem flogið var með milli land­anna tveggja var ferjað í þotum Icelandair því hlut­deild banda­rísku flug­fé­lag­anna í vöru­flutn­ingum var sára­lítil.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista