Ísland ekki hluti að áætlun næsta árs

Eins og staðan er í dag þá munu þotur Eurowings ekki fljúga hingað til lands næsta sumar.

Mynd: Eurowings

Mörg undanfarin sumur hefur Eurowings, áður German Wings, boðið upp á Íslandsflug frá Þýskalandi yfir helsta ferðamannatímabilið. Þegar mest lét gátu farþegar lággjaldafélagsins flogið hingað frá fimm þýskum borgum en síðastliðið sumar flugu þotur þess eingöngu hingað frá Hamborg og Köln. Í boði voru tvær ferðir í viku frá hvorri borg. Það stefnir hins vegar í að Eurowings taki ekki upp þráðinn næsta sumar því núna er ekkert Íslandsflug á boðstólum á heimasíðu þess. Aðspurður um stöðuna þá segir blaðafulltrúi flugfélagsins, í svari til Túrista, að eins og staðan sé í dag þá haldi Eurowings ekki úti neinu flugi til Íslands. Engar frekari skýringar fást á þessari breytingu.

Eurowings er hluti af Lufthansa Group en líkt og fram kom i viðtali Túrista við Andreas Köster, sölustjóra samsteypunnar, þá skrifaðist samdrátturinn hjá Eurowings síðastliðið sumar ekki á minni hylli Íslands sem áfangastaðar. „Eurowings er fyrst og fremst að takast á við tvö verkefni. Annars vegar samkeppni lággjaldaflugfélaga á heimamarkaði og hins vegar fjölgun ferða til Mallorca.” Hann bætti því við að Eurowings verði að sýna stöðugleika í rekstri og þyrfti því í raun að hafa úr fleiri flugvélum að moða til að geta sinnt fleiri mörkuðum með skilvirkum hætti. „Eurowings kemur vonandi aftur af meiri þunga til Íslands á næstu árum,” sagði Köster í ágúst. Tveimur mánuðum síðar lítur aftur á móti út fyrir að þotur Eurowings verði ekki sjáanlegar við Leifsstöð næsta sumar.

Samkvæmt talningu Túrista þá flugu þotur Eurowings hingað 55 ferðir í sumar og gera má ráð fyrir að um borð hafi verið að minnsta kosti sex til sjö þúsund þýskir ferðamenn. Það lætur þá nærri að félagið hafi flutt um tíunda hvern Þjóðverja sem hingað kom í sumar en Eurowings var eitt um flugið hingað frá Köln en í samkeppni við Icelandair í Hamborg um farþega á leið til Íslands.

Af bókunarvél Icelandair að dæma þá sjá stjórnendur þess tækifæri í að fjölga ferðum sínum til Hamborgar næsta sumar úr sjö í níu í viku. Sú viðbót vegur þá upp á móti brotthvarfi Eurowings þegar litið er til fjölda ferða. Hins vegar er hátt í helmingur farþega Icelandair að jafnaði tengifarþegar á meðan þotur Eurowings voru næsta víst nær eingöngu skipaðar ferðafólki á leið til Íslands.

Samkvæmt heimildum Túrista þá hefur forsvarsfólk annars umsvifamikils flugfélags verið tvístígandi varðandi Íslandsflug á næsta ári.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista