Ísland ekki hluti að áætlun næsta árs

Eins og staðan er í dag þá munu þotur Eurowings ekki fljúga hingað til lands næsta sumar.

Mynd: Eurowings

Mörg undan­farin sumur hefur Eurow­ings, áður German Wings, boðið upp á Íslands­flug frá Þýskalandi yfir helsta ferða­manna­tíma­bilið. Þegar mest lét gátu farþegar lággjalda­fé­lagsins flogið hingað frá fimm þýskum borgum en síðast­liðið sumar flugu þotur þess eingöngu hingað frá Hamborg og Köln. Í boði voru tvær ferðir í viku frá hvorri borg. Það stefnir hins vegar í að Eurow­ings taki ekki upp þráðinn næsta sumar því núna er ekkert Íslands­flug á boðstólum á heima­síðu þess. Aðspurður um stöðuna þá segir blaða­full­trúi flug­fé­lagsins, í svari til Túrista, að eins og staðan sé í dag þá haldi Eurow­ings ekki úti neinu flugi til Íslands. Engar frekari skýr­ingar fást á þessari breyt­ingu.

Eurow­ings er hluti af Luft­hansa Group en líkt og fram kom i viðtali Túrista við Andreas Köster, sölu­stjóra samsteyp­unnar, þá skrif­aðist samdrátt­urinn hjá Eurow­ings síðast­liðið sumar ekki á minni hylli Íslands sem áfanga­staðar. „Eurow­ings er fyrst og fremst að takast á við tvö verk­efni. Annars vegar samkeppni lággjalda­flug­fé­laga á heima­markaði og hins vegar fjölgun ferða til Mall­orca.” Hann bætti því við að Eurow­ings verði að sýna stöð­ug­leika í rekstri og þyrfti því í raun að hafa úr fleiri flug­vélum að moða til að geta sinnt fleiri mörk­uðum með skil­virkum hætti. „Eurow­ings kemur vonandi aftur af meiri þunga til Íslands á næstu árum,” sagði Köster í ágúst. Tveimur mánuðum síðar lítur aftur á móti út fyrir að þotur Eurow­ings verði ekki sjáan­legar við Leifs­stöð næsta sumar.

Samkvæmt taln­ingu Túrista þá flugu þotur Eurow­ings hingað 55 ferðir í sumar og gera má ráð fyrir að um borð hafi verið að minnsta kosti sex til sjö þúsund þýskir ferða­menn. Það lætur þá nærri að félagið hafi flutt um tíunda hvern Þjóð­verja sem hingað kom í sumar en Eurow­ings var eitt um flugið hingað frá Köln en í samkeppni við Icelandair í Hamborg um farþega á leið til Íslands.

Af bókun­arvél Icelandair að dæma þá sjá stjórn­endur þess tæki­færi í að fjölga ferðum sínum til Hamborgar næsta sumar úr sjö í níu í viku. Sú viðbót vegur þá upp á móti brott­hvarfi Eurow­ings þegar litið er til fjölda ferða. Hins vegar er hátt í helm­ingur farþega Icelandair að jafnaði tengifar­þegar á meðan þotur Eurow­ings voru næsta víst nær eingöngu skip­aðar ferða­fólki á leið til Íslands.

Samkvæmt heim­ildum Túrista þá hefur forsvars­fólk annars umsvifa­mikils flug­fé­lags verið tvístíg­andi varð­andi Íslands­flug á næsta ári.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista