Kröfur vegna Gamanferða greiddar að fullu

Rekstrarstöðvun ferðaskrifstofunnar hafði áhrif á ferðaáætlanir yfir þrjú þúsund manns. Samtals námu kröfur þeirra 203 milljónum króna.

gaman ferdir mynd
Mynd: Gamanferðir

Stjórnendur Gamanferða skiluðu inn ferðaskrifstofuleyfi sínu og hættu starfsemi aðeins hálfum mánuði eftir gjaldþrot WOW air í vetrarlok. En flugfélagið átti 49 prósent hlut í Gamanferðum. Þessi rekstrarstöðvun hafði áhrif á ferðir yfir þrjú þúsund farþega og bárust Ferðamálastofu, sem hefur umsjón með skyldutryggingu ferðaskrifstofa, nákvæmlega 1.044 kröfur vegna stöðunnar samkvæmt tilkynningu frá stofnunni. Þar segir að vinna Ferðamálastofu hafi miðað að því að gera fólki kleift að nýta eins og frekast var kostur þá þjónustu sem það hafði þegar bókað og greitt fyrir eða greitt inn á. Þannig var fjölmörgum tilfellum hægt að nýta hluta pakkaferðar, t.d. tónleikamiða, hótelgistingu eða flug.

„Markmiðið var að nýta sem best tryggingafé ferðaskrifstofunnar með það fyrir augum að fólk fengi til baka það sem greitt hafði verið fyrir ferðir eða hluta ferða sem ekki var hægt að fara. Þetta tókst því árangurinn af starfi Ferðamálastofu varð sá að trygging Gamanferða dugði fyrir samþykktum kröfum. Þannig kom ekki til þess að skerða þyrfti greiðslur til þeirra sem áttu réttmæta kröfu. Heildarfjárhæð krafna voru tæpar 203 milljónir. Af 1.044 kröfum voru 980 samþykktar, þar af þrjátíu og sex að hluta. Heildarfjárhæð samþykktra krafna voru tæpar 190 milljónir. Í 44 tilfellum voru kröfur dregnar til baka og tuttugu var hafnað,“ segir í tilkynningu frá Ferðamálastofu.

Þar segir jafnframt að byrjað verði að greiða samþykktar kröfur á næstu dögum. Stjórnendur og stofnendur Gamanferða eru komnir af stað með nýja ferðaskrifstofu sem ber heitið Komdu með.