Líkur á að hærri fargjöld vegi þungt

Horfur í rekstri Icelandair Group á árinu 2019 eru betri en gert hafði verið ráð fyrir. Þó lítið sé rætt um hærri tekjur í tilkynningu félagsins þá eru vísbendingar um að farmiðaverðið hafi verið á uppleið. Farþegunum hefur líka fjölgað.

Hvort tekjur Icelandair á hvert sæti hafa aukist kemur í ljós þegar félagið birtir uppgjör sitt í lok vikunnar. Mynd: Icelandair

Á fimmtu­daginn mun Icelandair Group birta uppgjör sitt fyrir þriðja og arðbær­asta fjórðung ársins. Niður­staðan liggur nú að mestu leyti fyrir samkvæmt því sem segir í frétta­til­kynn­ingu sem félagið sendi frá sér í gærkvöld. Þar segir að miðað við fyrir­liggj­andi forsendur þá hafi svokölluð EBIT afkoma fyrir árið verið breytt úr tapi upp á 70 til 90 millj­ónir banda­ríkja­dala í neikvæða afkomu upp á 35 til 55 millj­ónir dala. Það jafn­gildir taprekstri upp á 4,4 til 6,9 millj­arða króna.

Skýr­ingin á þessum bata, samkvæmt tilkynn­ing­unni, liggur meðal annars í því að kostn­aður vegna innleið­ingar á nýjum MAX þotum fellur ekki á þessu ári heldur á því næsta. Umbætur á leiða­kerfi og bætt tekju­stýring hafi líka skilað árangri samkvæmt því sem segir í fyrr­nefndi tilkynn­ingu. Gera má ráð fyrir að þar sé meðal annars vísað til aukinnar áherslu á farþega á leið til og frá Íslandi í stað tengifar­þega. Og ekki er ósenni­legt að sú þróun hafi leitt til þess að meðal­far­gjöldin hafi hækkað því samkeppni í flugi til og frá Kefla­vík­ur­flug­velli hefur dregist veru­lega saman eftir fall WOW air.

Yfir háanna­tímann í fyrra var WOW air einnig í baráttu upp á líf og dauða og í uppgjöri Icelandair fyrir þriðja ársfjórðung 2018 var versn­andi afkoma m.a. sögð skrifast á lág fargjöld. Núna gætu bættar horfur skrifast á hærri fargjöld. Það eru nefni­lega vísbend­ingar um að fargjöld fari hækk­andi í lönd­unum í kringum okkur. Þannig hefur meðal­far­gjaldið hjá SAS og Norwegian hækkað síðustu mánuði og sú þróun hefur ekki ósenni­lega skilað sér til Icelandair nú þegar félagið er á ný komið með yfir­burða­stöðu á Kefla­vík­ur­flug­velli.

Það má einnig horfa til þess að sæta­nýt­ingin hjá Icelandair hefur lækkað síðustu mánuði sem gæti verið enn ein vísbend­ingin um að félagið hafi rukkað meira fyrir hvert sæti en á sama tíma í fyrra. Farþegum félagsins hefur þó fjölgað og þannig nýttu um 86 þúsund fleiri farþegar sér ferðir félagsins á þriðja ársfjórð­ungi samkvæmt mánað­ar­legum flutn­ingstölum. Ef þessi stóri hópur hefur borgað jafn mikið fyrir sæti, farangur og veit­ingar og þeir sem ferð­uðust með félaginu á sama tíma í fyrra þá hafa þessir viðbótarfar­þegar skilað félaginu um 23 millj­ónum dollara í tekjur. Það jafn­gildir um 2,9 millj­örðum króna. Sú tala er vænt­an­lega aðeins hærri þar sem fargjöldin hafa líklega hækkað sem fyrr segir.

Og þessi verð­þróun kann líka að vera skýr­ingin á því að horf­urnar fyrir síðasta ársfjórðung eru nú betri en fyrir sama tíma í fyrra. Hvort það hafi svo áhrif á fyrsta fjórðung næsta árs á eftir að koma í ljós en þá fellur reyndar til þessi fyrr­nefndi kostn­aður vegna innleið­ingar MAX þotanna sem nú hefur verið frestað.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista