Meðalfargjaldið hækkaði frá Íslandi en lækkaði í heildina

Þrátt fyrir aukna áherslu á að flytja farþega til og frá Íslandi og minni samkeppni á þeim markaði þá lækkaði meðalfargjaldið hjá Icelandair lítillega á þriðja ársfjórðungi ársins.

Mynd: Berlin Airports

Rétt rúmlega 1,5 milljón farþega nýttu sér ferðir Icelandair á þriðja fjórðungi ársins. Það er viðbót um fimm prósent frá sama tíma í fyrra. Hins vegar hækkuðu farþegatekjurnar minna eða um fjögur prósent í dollurum talið en Icelandair gerir upp í þeirri mynt. Félagið færði hins vegar bætur frá Boeing ekki aðeins til niðurfærslu á leigukostnaði heldur einnig sem farþegatekjur samkvæmt því sem fram kemur í uppgjöri. Þar með er samanburður við fyrri tímabil ekki mögulegur.

Þetta er þó klár vísbending um að farþegatekjur hafa verið nokkru lægri en á sama tíma í fyrra. Það er ekki í takt við það sem spáð var hér á síðunni fyrr í vikunni þar sem leiddar voru líkur að því að fargjöldin hefðu hækkað, m.a. vegna brotthvarfs WOW air og líka vegna þeirrar staðreyndar að meðalfargjaldið hefur farið hækkandi hjá bæði Norwegian og SAS síðustu mánuði.

Sú þróun hefur þá ekki skilað sér að öllu leyti til Icelandair en í uppgjöri félagsins, sem birt var í kvöld. Þar er þó tekið fram að fargjöld hafi hækkað á markaðnum frá Íslandi og eins hjá tengifarþegum. Aftur á móti hafi þeir sem ferðuðst til Íslands borgað að jafnaði minna en í fyrra. Skýringin á þessu er sögð ójafnvægi í leiðakerfi og sterkari bandaríkjadollari.

Uppfært: Í upphaflegri útgáfu var útreikningum á meðalfargjöldum í dollurum og krónum. Í ljósi þess að bætur frá Boeing voru færðar sem farþegatekjur, án þess að upphæðin sé þekkt, þá skekkir það fyrrnefndan samanburð.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista