Miklu fleiri nýta sér ferðir Wizz Air

Farþegum ungverska lággjaldaflugfélagsins fjölgar ört og sætisraðirnar um borð verða sífellt þéttsetnari.

Þota á vegum Wizz Air í jómfrúarferð félagsins hingað til lands í síðasta mánuði frá Kraká í Pólland. MYND: HILMAR BRAGI BÁRÐARSON / ISAVIA

Eftir brotthvarf WOW air þá er Wizz Air næst umsvifamesta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli. Í vetur munu þotur þessa ungverska lággjaldaflugfélags fljúga héðan til fimm pólskra borga auk reglulegra ferða til Vilnius, Riga, Búdapest, Vínar og London. Og það er ekki aðeins Íslandsflug Wizz Air sem eykst hröðum skrefum og til marks um það þá flutti félagið rúmlega 3,8 milljónir farþega í september sem er sautján prósent aukning frá sama tíma í fyrra. Að jafnaði voru um 95 af hverjum hundrað sætum um borð í þotum félagsins skipaðar farþegum sem er smá viðbót frá sama tíma í fyrra.

Nýverið tóku stjórnendur Wizz Air upp á því að birta mánaðarlegt uppgjör yfir losun gróðurhúsalofttegunda á hvern farþega félagsins. Niðurstaðan fyrir september var sú að losunin nam 56,9 grömmum á hvern kílómetra sem er samdráttur um 3,5 prósent á hvern farþega. Sú þróun skrifast meðal annars á þéttsetnari þotur og þá staðreynd að flugfloti Wizz Air er í yngri kantinum. Síðustu tólf mánuði hefur heildarlosun Wizz Air þó aukist um 14,5 prósent sem er í takt við aukið sætaframboð.

Þess má geta að stjórnarformaður Wizz Air og einn stærsti eigandinn er William Franke. Sá hinn sami og skoðaði kaup á WOW air síðastliðinn vetur.