Mun fleiri Hollend­ingar á norð­lenskum hótelum

Á nýliðnu sumri gátu Hollendingar flogið beint til Akureyrar og framhald verður á ferðunum í vetrarlok og aftur næsta sumar. Fimmti hver Hollendingur hélt sig á Norðurlandi í Íslandsferðinni.

Hótel KEA á Akureyri. Mynd: Keahótelin

Hollenska ferða­skrif­stofan Voigt Travel stóð fyrir reglu­legum flug­ferðum Transavia frá Rotterdam til Akur­eyrar í sumar og samtals voru farnar sextán ferðir.  Þau sæti sem ekki voru frátekin fyrir viðskipta­vini ferða­skrif­stof­unnar voru á boðstólum á heima­síðu flug­fé­lagsins sjálfs og gátu Norð­lend­ingar sjálfir því komist beint til Hollands úr heima­byggð. Og það er greini­legt á gistinátta­tölum Hagstof­unnar að það hafa mun fleiri Hollend­ingar verið á ferð­inni fyrir norðan í sumar en undan­farin ár. Þannig bókuðu Hollend­ingar samtals 5.150 hótel­nætur á norð­lenskum hótelum yfir sumar­mán­uðina þrjá í ár sem er helm­ings viðbót frá sumrinu 2018.

Gestir Voigt Travel héldu sig líka margir hverjir í fjórð­ungnum samkvæmt því sem kom fram í máli Cees van den Bosch, fram­kvæmda­stjóra og eiganda Voigt Travel, á ráðstefnu sem Mark­aðs­stofa Norð­ur­lands stóð fyrir í síðustu viku. Þar sagði hann að hollensku ferða­menn­irnir hefðu að jafnaði dvalið á Íslandi í rúmlega ellefu nætur í sumar og um fimmt­ungur þeirra fór ekki út fyrir Norð­ur­land. Fram­hald verður á þessum ferðum næsta sumar.

Í vetur gefst svo viðskipta­vinum Voigt Travel kostur á að fljúga beint frá Amsterdam til Akur­eyrar og er um að ræða fimm til sex nátta ferðir sem kosta að jafnaði 2400 eða um 330 þúsund krónur að sögn Gees an den Bosch. Átta brott­farir verða í boði og sú fyrsta á dagskrá þann 14. febrúar og flogið verður tvisvar í viku, á mánu­dögum og föstu­dögum. Líkt og í sumar þá geta Norð­lend­ingar líka nýtt sér þessar flug­sam­göngur og er sala á slíkum ferðum hafin hjá Ferða­skrif­stofu Akur­eyrar.