Mun fleiri Hollendingar á norðlenskum hótelum

Á nýliðnu sumri gátu Hollendingar flogið beint til Akureyrar og framhald verður á ferðunum í vetrarlok og aftur næsta sumar. Fimmti hver Hollendingur hélt sig á Norðurlandi í Íslandsferðinni.

Hótel KEA á Akureyri. Mynd: Keahótelin

Hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel stóð fyrir reglulegum flugferðum Transavia frá Rotterdam til Akureyrar í sumar og samtals voru farnar sextán ferðir.  Þau sæti sem ekki voru frátekin fyrir viðskiptavini ferðaskrifstofunnar voru á boðstólum á heimasíðu flugfélagsins sjálfs og gátu Norðlendingar sjálfir því komist beint til Hollands úr heimabyggð. Og það er greinilegt á gistináttatölum Hagstofunnar að það hafa mun fleiri Hollendingar verið á ferðinni fyrir norðan í sumar en undanfarin ár. Þannig bókuðu Hollendingar samtals 5.150 hótelnætur á norðlenskum hótelum yfir sumarmánuðina þrjá í ár sem er helmings viðbót frá sumrinu 2018.

Gestir Voigt Travel héldu sig líka margir hverjir í fjórðungnum samkvæmt því sem kom fram í máli Cees van den Bosch, framkvæmdastjóra og eiganda Voigt Travel, á ráðstefnu sem Markaðsstofa Norðurlands stóð fyrir í síðustu viku. Þar sagði hann að hollensku ferðamennirnir hefðu að jafnaði dvalið á Íslandi í rúmlega ellefu nætur í sumar og um fimmtungur þeirra fór ekki út fyrir Norðurland. Framhald verður á þessum ferðum næsta sumar.

Í vetur gefst svo viðskiptavinum Voigt Travel kostur á að fljúga beint frá Amsterdam til Akureyrar og er um að ræða fimm til sex nátta ferðir sem kosta að jafnaði 2400 eða um 330 þúsund krónur að sögn Gees an den Bosch. Átta brottfarir verða í boði og sú fyrsta á dagskrá þann 14. febrúar og flogið verður tvisvar í viku, á mánudögum og föstudögum. Líkt og í sumar þá geta Norðlendingar líka nýtt sér þessar flugsamgöngur og er sala á slíkum ferðum hafin hjá Ferðaskrifstofu Akureyrar.