Nærri 800 færri flugferðir til útlanda

Líkt og síðustu mánuði þá fækkaði flugferðunum héðan út í heim verulega í september. Það gat sem WOW air skildi eftir sig hefur aðeins verið fyllt af litlu leyti.

Delta Air Lines er eitt þeirra flugfélaga sem heldur uppi áætlunarferðum héðan nú í haust. Mynd: Isavia

Þotur WOW air tóku 925 sinnum á loft frá Keflavíkurflugvelli í september í fyrra og félagið stóð þá undir þriðju hverri áætlunarferð héðan. Í nýliðnum september fækkaði áætlunarferðunum frá flugvellinum hins vegar um 792 eða um 29 prósent frá sama tíma í fyrra. Það skarð sem WOW air skildi eftir sig hefur því aðeins verið fyllt að litlu leyti.

Því til viðbótar þá varð Germania gjaldþrota í vetur en þetta þýska flugfélag flaug hingað frá Bremen, Dresden og Nurnberg síðastliðið sumar og haust.

Og segja má að Icelandair hafi í raun verið eina flugfélagið sem bætti við ferðum að einhverju ráði í september. Ferðum félagsins fjölgaði nefnilega um 114 frá því í september í fyrra. Er þá aðeins litið til áætlunarferða en ekki leiguflugs til spænskra sólarstaða.