Nýr eigandi að ferðaskrifstofum Thomas Cook á Norðurlöndum

Norski hóteljöfurinn Petter Stordalen ásamt tveimur fjárfestingasjóðum hefur fest kaup á nokkrum af stærstu ferðaskrifstofum Norðurlanda. Flugfélag fylgir með í kaupunum.

Petter Stordalen og Magnus Wikner, framkvæmdastjóri Thomas Cook á Norðurlöndum. Mynd: Vinggruppen

Þrátt fyrir að Thomas Cook samsteypan hafi orðið gjaldþrota í haust þá var rekstur fyrirtækisins á Norðurlöndunum blómlegur. Það voru því margir áhugasamir um að taka dótturfélagið Thomas Cook Northern Europe yfir eftir gjaldþrot breska móðurfélagsins. Þannig sagði blaðafulltrúi félagsins að allt að tíu kaupendur hefðu sýnt fyrirtækinu áhuga en nokkrar af stærstu ferðskrifstofum frændþjóðanna heyra undir það. Auk þess rekur það flugfélag sem fyrst og fremst flýgur með viðskiptavini systurfélaganna suður á bóginn. Um 2300 manns vinna hjá fyrirtækjunum á hinum Norðurlöndunum fjórum.

Nú liggur fyrir að nýir eigendur að norræna rekstrinum eru tveir fjárfestingasjóðir ásamt hinum norska Petter Stordalen. Sá er einn umsvifamesti hóteleigandi Norðurlanda og á blaðamannafundi í Stokkhólmi, sem er nýlokið, sagði hann að hópurinn myndi leggja fyrirtækinu til um 6 milljarða sænskra króna. Það jafngildir um 77 milljörðum íslenskra króna.

Hluti af þeirri upphæð fer í að tryggja ferðir sem nú þegar hafa verði seldar enda verður gamla móðurfélagið sett í þrot og nýtt stofnað utan um reksturinn. Farþegar sem bókuðu ferðir með því gamla verða því ekki fyrir skakkaföllum. „Við tökum reikninginn,“ sagði Stordalen kampakátur á fundinum í morgun.

Ferðaskrifstofur Thomas Cook á Norðurlöndum eru ekki þær einu sem verið hafa til sölu því Arion vinnur nú að því að finna nýja eigendur að þeim sjö ferðaskrifstofum sem bankinn tók yfir í sumar. Þar af eru fimm á hinum Norðurlöndunum og tvær íslenskar, Heimsferðir og Terra Nova.