Ódýr­ustu farmið­arnir eru tölu­vert dýrari en hjá Icelandair

Há fargjöld í Íslandsflug American Airlines vekja athygli. Talskona félagsins segir verðlagninguna aðeins taka mið af markaðnum.

Ráðhúsið í Philadelphia. Í sumar munu bæði þotur American Airlines og Icelandair flúga frá borginni til Íslands. Mynd: C. Smyth for VISIT PHILADELPHIA®

Síðustu tvö sumur hafa þotur American Airlines flogið héðan daglega frá flug­vell­inum í Dallas í Texas. Fyrra sumarið átti félagið í samkeppni við bæði Icelandair og WOW en sat svo eitt að þessari flug­leið í sumar. Stjórn­endur þessa stærsta flug­fé­lagsins í heimi, mælt í fjölda farþega og flug­flota, ætla hins vegar að færa Íslands­flug félagsins frá Dallas til Phila­delphia á næsta ári. Þaðan flýgur Icelandair reglu­lega yfir sumar­mán­uðina og fær því samkeppni í sumar­byrjun.

Fargjöld félag­anna tveggja, á ferðum til Phila­delphia, eru hins vegar mjög ólík þessa dagana. Hjá American Airlines kosta farmiðar, báðar leiðir, að minnsta kosti 119 þúsund krónur og ef dvalið er í fáar nætur þá getur ódýr­asta sætið kostað um 330 þúsund krónur. Innifalið eru veit­ingar og ein innrituð taska hjá banda­ríska flug­fé­laginu.

Farmiða­verðið hjá Icelandair er nokkru hóflegra og í mörgum tilfellum um fjórð­ungi ódýrara en hjá keppi­nautnum samkvæmt athugun Túrista. Algengt verð á farmiða með Icelandair, báðar leiðir, er nefni­lega rúmar 88 þúsund krónur með tösku. Stundum eru farmið­arnir hjá íslenska félaginu vissu­lega dýrari en þó í lang­flestum tilfellum ódýrari en hjá American Airlines.

Það er vel þekkt að mjög há fargjöld og jafnvel ósam­keppn­ishæf eru oft undan­fari þess að flug­leið sé lögð niður. Ekkert þess háttar er hins vegar í pípunum hjá American Airlines. Í svari frá blaða­full­trúa félagsins segir að verð­lagning á farmiðum taki tillit til eftir­spurnar, lausra sæta á ákveðnum dagsetn­ingu auk fleiri þátta. Þar með geti verðið sveiflast og breyst en eigi að vera samkeppn­is­hæft.

Ekki fást hins vegar upplýs­ingar um hvort þetta fargjöldin í dag séu til marks um að sala á Íslands­flugi American Airlines frá Phila­delphia gangi svona vel þó enn sú margir mánuðir í jómfrú­arflugið.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista