Ódýrustu farmiðarnir eru töluvert dýrari en hjá Icelandair

Há fargjöld í Íslandsflug American Airlines vekja athygli. Talskona félagsins segir verðlagninguna aðeins taka mið af markaðnum.

Ráðhúsið í Philadelphia. Í sumar munu bæði þotur American Airlines og Icelandair flúga frá borginni til Íslands. Mynd: C. Smyth for VISIT PHILADELPHIA®

Síðustu tvö sumur hafa þotur American Airlines flogið héðan daglega frá flugvellinum í Dallas í Texas. Fyrra sumarið átti félagið í samkeppni við bæði Icelandair og WOW en sat svo eitt að þessari flugleið í sumar. Stjórnendur þessa stærsta flugfélagsins í heimi, mælt í fjölda farþega og flugflota, ætla hins vegar að færa Íslandsflug félagsins frá Dallas til Philadelphia á næsta ári. Þaðan flýgur Icelandair reglulega yfir sumarmánuðina og fær því samkeppni í sumarbyrjun.

Fargjöld félaganna tveggja, á ferðum til Philadelphia, eru hins vegar mjög ólík þessa dagana. Hjá American Airlines kosta farmiðar, báðar leiðir, að minnsta kosti 119 þúsund krónur og ef dvalið er í fáar nætur þá getur ódýrasta sætið kostað um 330 þúsund krónur. Innifalið eru veitingar og ein innrituð taska hjá bandaríska flugfélaginu.

Farmiðaverðið hjá Icelandair er nokkru hóflegra og í mörgum tilfellum um fjórðungi ódýrara en hjá keppinautnum samkvæmt athugun Túrista. Algengt verð á farmiða með Icelandair, báðar leiðir, er nefnilega rúmar 88 þúsund krónur með tösku. Stundum eru farmiðarnir hjá íslenska félaginu vissulega dýrari en þó í langflestum tilfellum ódýrari en hjá American Airlines.

Það er vel þekkt að mjög há fargjöld og jafnvel ósamkeppnishæf eru oft undanfari þess að flugleið sé lögð niður. Ekkert þess háttar er hins vegar í pípunum hjá American Airlines. Í svari frá blaðafulltrúa félagsins segir að verðlagning á farmiðum taki tillit til eftirspurnar, lausra sæta á ákveðnum dagsetningu auk fleiri þátta. Þar með geti verðið sveiflast og breyst en eigi að vera samkeppnishæft.

Ekki fást hins vegar upplýsingar um hvort þetta fargjöldin í dag séu til marks um að sala á Íslandsflugi American Airlines frá Philadelphia gangi svona vel þó enn sú margir mánuðir í jómfrúarflugið.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista