Samfélagsmiðlar

Ólíku saman að (kolefnis)jafna

Flugfélögum og samtökum sem bjóða farþegum kolefnislosun ber ekki saman um hversu mikil mengunin er í raun af flugferðum milli borga. Einnig er deilt um hvort gróðursetning á norðurhveli jarðar sé rétta leiðin til að létta á flugviskubitinu.

Áhrif af losun eldsneytis í háloftunum eru vanmetin að mati samtaka sem sérhæfa sig í útreikningum á kolefnislosun.

Að reikna út losun gróðurhúsalofttegunda á hvern farþega í flugvél er ekki einfalt. Taka þarf tillit til tegundar og aldurs þotunnar, hversu margir farþegar eru um borð, í hvaða hæð er flogið, þyngd fraktarinnar og svo mætti áfram telja. Meðal annars af þessum sökum er niðurstaðan nokkuð mismunandi þegar hinar ýmsu reiknivélar eru nýttar til að finna út hversu mikið hver flugferð losar á hvern farþega. Minnst virðist losunin þó vera samkvæmt útreikningum flugfélaganna sjálfra. Reiknivél Icelandair er nýjasta dæmið um það en hún sýnir meðal annars hversu miklu meiri losunin er vegna farþega á Saga farrými.

Samkvæmt reiknivél Icelandair þá nemur losun af koltví­sýr­ingi á hvern farþega, á almennu farrými, um 400 kílóum ef flogið er héðan til Frankfurt og heim aftur. Ef notuð er þýska reiknivélin Atmosfair, sem breska dagblaðið Guardian hefur mælt með, þá er losun á hvern farþega Icelandair, í flugi til og frá þýsku borginni, um eitt tonn af gróðurhúsalofttegundum. Sænska reiknivélin Klimatsmart, sem danska blaðið Politiken styðst jafnan við, fer bil beggja og segir losunina af flugi milli Íslands og Frankfurt nema 783 kílóum.

Í svari Atmosfair, við fyrirspurn Túrista, segir að skýringin á þessu misræmi sé helst sú að flugfélög og líka flugstofnun Sameinuðu þjóðanna horfi aðeins til eldsneytisnotkunar óháð því hvar losunin á sér stað. Bent er á að flugfélög taki ekki tillit til þess að brennsla á olíu í háloftunum er margfalt skaðlegri en á jörðu niðri. Þannig þrefaldist umhverfisáhrifin af losuninni þegar flogið er í að minnsta kosti níu þúsund metra hæð.

Svörin frá svissnesku samtökunum Myclimate eru á sama veg. Þar á bæ er líka horft til þessara margföldunar áhrifa sem brennsla á þotueldsneyti veldur í háloftunum og nemur losunin af flugferð héðan til Frankfurt 864 kg. samkvæmt reiknivél á heimasíðu Myclimate sjálfs. Aftur á móti eru niðurstöður Myclimate allt aðrar þegar reiknivél samtakanna á vefsíðu Lufthansa flugfélagsins er notuð. Þá segir að losun á hvern farþega þýska flugfélagsins nemi 312 kílóum af koltví­sýr­ingi ef flogið er frá Íslandi til Frankfurt, báðar leiðir.

Aðspurður um þennan mikla mun þá segir Kai Landwehr, blaðafulltrúi Myclimate, að í reiknivél Lufthansa sé aðeins horft til losunar vegna eldsneytisnotkunar en ekki til fyrrnefndra heildaráhrifa vegna flughæðar. Landwehr bendir hins vegar á að þegar losun í tengslum við Lufthansa flug er reiknað út eitt og sér þá er horft til raunverulegra gagna um eldsneytisnotkun og sætanýtingu frá flugfélaginu sjálfu. Og það mun líka vera raunin í leitarvél Icelandair sem unnin er í samstarfi við Klappir.

Í Íslandsflug sitt frá Frankfurt notar Lufthansa að jafnaði átta ára gamlar Airbus þotur á meðan flugvélar Icelandair eru flestar í dag framleiddar um aldamótin. Aldur flugflota Icelandair skýrir þó sennilega ekki allan muninn því íslenska félagið flytur oftar en ekki nokkru meiri frakt, til og frá landinu, en erlendu félögin gera. Þar með eykst olíuþörfin og til marks um það þá notar Delta líka eldri gerðir af Boeing 757 þotum í áætlunarferðir sínar hingað frá New York. Samt kemur félagið aðeins betur út úr mælingum Atmosfair eins og sjá má hér fyrir neðan.

Hin hliðin á kolefnisjöfnuninni er svo hvernig staðið er að því að jafna út mengunina sem af fluginu verður. Það fé sem farþegar Icelandair leggja til kolefnisjöfunar fer til að mynda í kaup á plöntum sem gróðursettar eru hér á landi á vegum Kolviðs. Skilvirkni þess að binda kolefni í jörðu með gróðursetningu skóga á norðurhveli jarðar er hins vegar umdeild og þannig eru íslenskir sérfræðingar ekki á einu máli. Þannig benti til dæmis dr. Anna Guðrún Þór­halls­dótt­ir, beit­ar­vist­fræðing­ur og pró­fess­or við Há­skól­ann á Hól­um, á að skógar á norður­slóðum kæl­i ekki held­ur hit­i í viðtali við Morgunblaðið í síðustu viku. Sérfræðingar Skógræktarinnar halda hins vegar öðru fram.

Hvað sem því líður þá hefur jafnframt verið á það bent að Kolviður er ekki með neinar alþjóðlegar vottanir á sviði kolefnisjöfnunar. Í svari samtakanna til Túrista segir að verið sé að vinna að þeim málum og mismunandi vottunaraðila til skoðunar. Gróðursetning er þó ekki eina leiðin til að kolefnisjafna flugferðir. Kaup á umhverfisvænni eldavélum fyrir fátæk heimili í Kenýa og gróðursetning í Nicaragua er meðal þeirra verkefna sem hægt er styrkja með því kolefnisjafna flugferð hjá Myclimate og Lufthansa.

Nýtt efni

Faxaflóahafnir héldu vorfund sinn fyrir helgi til að kynna fyrirtækjum í ferðaþjónustu skipulag sumarsins við móttöku skemmtiferðaskipa, sem tekur mið af því raski sem verður vegna byggingar farþegamiðstöðvar Faxaflóahafna. Þeim framkvæmdum á að ljúka að tveimur árum liðnum, eins og FF7 greindi nýverið frá. Fram kom á fundinum að gert er ráð fyrir rúmlega 308 …

Fréttaveitan Bloomberg sagði frá því á dögunum að mikil úlfúð ríkti í alþjóðlegu kolefnisvottunarsamtökunum Science Based Targets initiatives, eða SBTi.  Fyrirtæki um allar koppagrundir hafa lengi reitt sig á vottanir frá SBTi þegar þau hafa fullyrt að þau stefni að kolefnishlutleysi.  Yfirleitt er kannski lítil ástæða til þess að fólk kippi sér upp við slæman starfsanda og …

Þegar lent er á flugvelli á ESB-svæðinu bíður farþeganna ekki verslun með tollfrjálsan varning við töskubeltin. Þess háttar er aðeins í boði fyrir brottför. Í Evrópuríkjum utan ESB gefst hins vegar tækifæri til að kaupa ódýrara áfengi við komuna eins og við þekkjum frá Keflavíkurflugvelli. Þeir sem nýta tollinn sinn þar til að kaupa léttvín …

Þrjár þotur Loftleiða munu næstu misseri fljúga viðskiptavinum erlendra ferðaskrifstofa hringinn í kringum heiminn. Um borð eru sætin stærri og færri en í hefðbundnu áætlunarflugi enda kostar ferðalagið skildinginn. Hver farþegi borgar 25 milljónir fyrir ferðalag líkt og farið var yfir í fréttum Stöðvar 2.  Það er ekkert nýtt að Icelandair leigi þotu og áhöfn í …

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …