Ólíku saman að (kolefnis)jafna

Flugfélögum og samtökum sem bjóða farþegum kolefnislosun ber ekki saman um hversu mikil mengunin er í raun af flugferðum milli borga. Einnig er deilt um hvort gróðursetning á norðurhveli jarðar sé rétta leiðin til að létta á flugviskubitinu.

Áhrif af losun eldsneytis í háloftunum eru vanmetin að mati samtaka sem sérhæfa sig í útreikningum á kolefnislosun. Mynd: Aman Bhargava / Unsplash

Að reikna út losun gróð­ur­húsaloft­teg­unda á hvern farþega í flugvél er ekki einfalt. Taka þarf tillit til tegundar og aldurs þotunnar, hversu margir farþegar eru um borð, í hvaða hæð er flogið, þyngd frakt­ar­innar og svo mætti áfram telja. Meðal annars af þessum sökum er niður­staðan nokkuð mismun­andi þegar hinar ýmsu reikni­vélar eru nýttar til að finna út hversu mikið hver flug­ferð losar á hvern farþega. Minnst virðist losunin þó vera samkvæmt útreikn­ingum flug­fé­lag­anna sjálfra. Reiknivél Icelandair er nýjasta dæmið um það en hún sýnir meðal annars hversu miklu meiri losunin er vegna farþega á Saga farrými.

Samkvæmt reiknivél Icelandair þá nemur losun af koltví­sýr­ingi á hvern farþega, á almennu farrými, um 400 kílóum ef flogið er héðan til Frankfurt og heim aftur. Ef notuð er þýska reikni­vélin Atmos­fair, sem breska dagblaðið Guar­dian hefur mælt með, þá er losun á hvern farþega Icelandair, í flugi til og frá þýsku borg­inni, um eitt tonn af gróð­ur­húsaloft­teg­undum. Sænska reikni­vélin Klimats­mart, sem danska blaðið Politiken styðst jafnan við, fer bil beggja og segir losunina af flugi milli Íslands og Frankfurt nema 783 kílóum.

Í svari Atmos­fair, við fyrir­spurn Túrista, segir að skýr­ingin á þessu misræmi sé helst sú að flug­félög og líka flug­stofnun Sameinuðu þjóð­anna horfi aðeins til eldsneyt­is­notk­unar óháð því hvar losunin á sér stað. Bent er á að flug­félög taki ekki tillit til þess að brennsla á olíu í háloft­unum er marg­falt skað­legri en á jörðu niðri. Þannig þrefaldist umhverf­isáhrifin af losun­inni þegar flogið er í að minnsta kosti níu þúsund metra hæð.

Svörin frá sviss­nesku samtök­unum Myclimate eru á sama veg. Þar á bæ er líka horft til þessara marg­föld­unar áhrifa sem brennsla á þotu­eldsneyti veldur í háloft­unum og nemur losunin af flug­ferð héðan til Frankfurt 864 kg. samkvæmt reiknivél á heima­síðu Myclimate sjálfs. Aftur á móti eru niður­stöður Myclimate allt aðrar þegar reiknivél samtak­anna á vefsíðu Luft­hansa flug­fé­lagsins er notuð. Þá segir að losun á hvern farþega þýska flug­fé­lagsins nemi 312 kílóum af koltví­sýr­ingi ef flogið er frá Íslandi til Frankfurt, báðar leiðir.

Aðspurður um þennan mikla mun þá segir Kai Landwehr, blaða­full­trúi Myclimate, að í reiknivél Luft­hansa sé aðeins horft til losunar vegna eldsneyt­is­notk­unar en ekki til fyrr­nefndra heild­aráhrifa vegna flug­hæðar. Landwehr bendir hins vegar á að þegar losun í tengslum við Luft­hansa flug er reiknað út eitt og sér þá er horft til raun­veru­legra gagna um eldsneyt­is­notkun og sæta­nýt­ingu frá flug­fé­laginu sjálfu. Og það mun líka vera raunin í leit­arvél Icelandair sem unnin er í samstarfi við Klappir.

Í Íslands­flug sitt frá Frankfurt notar Luft­hansa að jafnaði átta ára gamlar Airbus þotur á meðan flug­vélar Icelandair eru flestar í dag fram­leiddar um alda­mótin. Aldur flug­flota Icelandair skýrir þó senni­lega ekki allan muninn því íslenska félagið flytur oftar en ekki nokkru meiri frakt, til og frá landinu, en erlendu félögin gera. Þar með eykst olíu­þörfin og til marks um það þá notar Delta líka eldri gerðir af Boeing 757 þotum í áætl­un­ar­ferðir sínar hingað frá New York. Samt kemur félagið aðeins betur út úr mælingum Atmos­fair eins og sjá má hér fyrir neðan.

Hin hliðin á kolefnis­jöfn­un­inni er svo hvernig staðið er að því að jafna út meng­unina sem af fluginu verður. Það fé sem farþegar Icelandair leggja til kolefnisjöf­unar fer til að mynda í kaup á plöntum sem gróð­ur­settar eru hér á landi á vegum Kolviðs. Skil­virkni þess að binda kolefni í jörðu með gróð­ur­setn­ingu skóga á norð­ur­hveli jarðar er hins vegar umdeild og þannig eru íslenskir sérfræð­ingar ekki á einu máli. Þannig benti til dæmis dr. Anna Guðrún Þór­halls­dótt­ir, beit­ar­vist­fræðing­ur og pró­fess­or við Há­skól­ann á Hól­um, á að skógar á norður­slóðum kæl­i ekki held­ur hit­i í viðtali við Morg­un­blaðið í síðustu viku. Sérfræð­ingar Skóg­rækt­ar­innar halda hins vegar öðru fram.

Hvað sem því líður þá hefur jafn­framt verið á það bent að Kolviður er ekki með neinar alþjóð­legar vott­anir á sviði kolefnis­jöfn­unar. Í svari samtak­anna til Túrista segir að verið sé að vinna að þeim málum og mismun­andi vott­un­ar­aðila til skoð­unar. Gróð­ur­setning er þó ekki eina leiðin til að kolefnis­jafna flug­ferðir. Kaup á umhverf­i­s­vænni elda­vélum fyrir fátæk heimili í Kenýa og gróð­ur­setning í Nicaragua er meðal þeirra verk­efna sem hægt er styrkja með því kolefnis­jafna flug­ferð hjá Myclimate og Luft­hansa.