Önnur evrópsk flugfélög sjá tækifæri í San Francisco

Stuttu eftir að Icelandair gaf frá sér flug til San Francisco þá bættu tvö flugfélög borginni við leiðakerfi sitt. Norwegian hefur fjölgað ferðum sínum þangað frá fimm evrópskum borgum sem allar eru í dag hluti af áætlun Icelandair.

Frá San Francisco. MYND RAGNAR VOREL / UNSPLASH

Afkoma af áætlunarferðum Icelandair til San Francisco stóð ekki undir væntingum og því mun félagið leggja niður þessa flugleið líkt og tilkynnt var um mánaðamótin. Þetta var í annað sinn á þessari öld sem Icelandair spreytir sig á flugi til borgarinnar. Með brotthvarfi Icelandair þaðan þá heyra beinar flugsamgöngur milli Íslands og Kaliforníu sögunni til en breiðþotur WOW air flugu til bæði Los Angeles og San Francisco frá sumarbyrjun 2016.

Á sama tíma og Icelandair kveður Kaliforníu þá sjá þó önnur evrópsk flugfélög sóknarfæri í San Francisco. Nokkrum dögum eftir að ákvörðun stjórnenda Icelandair lá fyrir þá tilkynntu starfsbræður þeirra hjá Alitalia að ítalska flugfélagið myndi endurnýja kynni sín af San Francisco næsta sumar. Og í byrjun ágúst ætlar pólska flugfélagið LOT að fara sína jómfrúarferð til borgarinnar sem verður þá níundi áfangastaður félagsins í Norður-Ameríku. Sú ákvörðun mun haldast í hendur við þá ákvörðun Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, að falla frá kröfu um að pólskir ferðamenn hafi sérstakar vegabréfaáritanir við komuna til landsins.

Í ljósi þeirra breytinga verður áhugavert að sjá hvort stjórnendur Icelandair sjái hag í flugi til Póllands eða lagi flugáætlun sína að einhverju leyti að flugi Wizz Air til Íslands. Það flugfélag flýgur nefnilega hingað frá fimm pólskum borgum.

Og það ekki nóg með að LOT og Alitalia ætli að hefja flug til San Francisco á sama tíma og Icelandair hverfur frá þessari sjöundi fjölförnustu flughöfn Bandaríkjanna. Í dag tilkynnti nefnilega Norwegian að ferðunum til San Francisco frá London, Barcelona, Madríd og París verði fjölgað og auk þess bætt við brottförum frá Ósló til Oakland, sem er í nágrenni við San Francisco. Icelandair flýgur í dag til allra þessara evrópsku borga en getur innan skamms ekki lengur boðið farþegum þaðan upp á flug til Kaliforníu, með millilendingu á Íslandi.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista