Óvíst hvort nýjasta bakslagið seinki MAX þotunum

Heimspressan, bandarísk flugmálayfirvöld og stjórnendur Boeing hafa fjallað um stöðuna á MAX þotunum um helgina. Ekki liggur hins vegar fyrir hvort nýjustu tíðindi verði til þess að vottun á þotunum dragist.

MAX þota Icelandair í Berlín. Núverandi áætlun flugfélagsins geri ráð fyrir að þess háttar þota flytji á ný farþega þangað þann 7. janúar nk. Mynd: Berlin Tegel

Spjótin hafa staðið á stjórnendum Boeing síðustu sólarhringa eftir að í ljós kom að þeir höfðu ekki upplýst flugmálayfirvöld vestanhafs um þriggja ára gömul samskipti flugmanna Boeing sem sýna fram á efasemdir þeirra um MCAS kerfið í MAX þotunum umtöluðu. En flugslysin tvö, þar sem 346 manns létu lífið, eru rakin til stýrikerfisins. Forstjóri bandaríska flugmálaeftirlitsins, FAA, kallaði á föstudag eftir skýringum frá Boeing á því hvers vegna ekki hafði verið upplýst fyrr um þessi samkipti flugmannanna.

Heimspressan hefur fjallað um málið yfir helgina og tvær fréttatilkynningar hafa borist frá Boeing vegna stöðunnar. Í þeirri síðari, sem birt var í gær, segir að það liggi fyrir að þessar fyrrnefndu efasemdir flugmannanna hafi snúist um flugherminn, sem þá var ófullgerður, en ekki flugvélarnar sjálfar. Í tilkynningunni kemur fram að stjórnendur Boeing hafi fullan skilning á þeirri athygli sem málið hafi vakið. Þeir harma jafnframt að fyrrnefnd samskipti flugmannanna hafi ratað í fréttir án almennilegra útskýringa um að þeir hafi í raun ekki verið að skiptast á skoðunum um MAX þoturnar heldur flugherminn sem þeir voru að prófa á þessum tímapunkti.

Ekki hefur komið fram hvort þetta nýjasta bakslag seinki endurkomu Boeing MAX þotanna enn frekar en áætlun Icelandair gerir ráð fyrir að flugvélarnar verði komnar í loftið strax eftir áramót. Stjórnendur Southwest og Air Canada gáfu það aftur á móti út í síðustu viku að þeir reikni ekki með þotunum fyrr en um miðjan febrúar. Og hjá Norwegian eru ekki lengur neinar MAX flugvélar í vetraráætluninni en henni lýkur í enda mars.

Hvort Icelandair fylgi í kjölfarið kemur væntanlega í ljós á næstunni. Það hefur verið allur gangur á því með hversu löngum fyrirvara félagið hefur tekið MAX út úr áætlun. Það var t.d. ekki fyrr en þann þriðja maí sl. sem áætlun Icelandair fram í miðjan júlí var breytt.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista