Samfélagsmiðlar

Sætanýtingin verri í fluginu til San Francisco

Á meðan um þrjú af hverjum fjórum sætum voru vanalega skipuð farþegum í flugi Icelandair til og frá Bandaríkjunum þá var nýtingin lægri í ferðunum til og frá Kaliforníu. Einn helsti keppinautur félagsins heldur þó tryggð við borginni þrátt fyrir lægri nýtingu og mikla samkeppni.

Frá San Francisco.

Það eru fimmtán evrópsk flugfélög sem fljúga til og frá San Francisco flugvelli og því mikil samkeppni um farþega á leið yfir Atlantshafið. Sú staða ásamt þeirri staðreynd að borgin var nýr áfangastaður hjá Icelandair kann að skýra að hluta til afhverju sætanýtingin í flugi Icelandair frá San Francisco var aðeins 71 prósent á fyrsta fjórðungi ársins en 76 prósent í öllu Ameríkuflugi félagsins á sama tímabili. Þessa þrjá mánuði flutti Icelandair um 15 þúsund farþega til og frá borginni.

Þessir útreikningar byggja á gögnum frá bandarískum flugmálayfirvöldum en tölur fyrir vorið og sumarið í ár liggja ekki fyrir. Sambærilegar upplýsingar eru ekki opinberar hér á landi.

Icelandair hóf flug til San Francisco í sumarbyrjun 2018 en þá var áratugur liðinn frá því að fyrstu tilraun félagsins til að fljúga til borgarinnar lauk. Samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu frá Icelandair í gær þá var afkoma af flugleiðinni ekki viðunandi. Þar hefur lægri nýting vafalítið nokkur áhrif en í því samhengi er fróðlegt að horfa til írska flugfélagsins Aer Lingus, sem er á margan hátt sambærilegt flugfélag við Icelandair. Í flugi Íranna, til og frá San Francisco, var sætanýtingin á fyrsta fjórðungi líka um sjötíu prósent á meðan hún var 75 prósent í öllu Bandaríkjaflugi félagsins.

Stjórnendur Aer Lingus sýna Kaliforníufluginu þó meiri þolinmæði en kollegar þeirra hjá Icelandair sem skrifast þá sennilega á betri afkomu. Þannig gæti kostnaðurinn við útgerð Aer Lingus verið nokkru lægri en hjá Icelandair því félagið nýtir tveggja ára gamlar Airbus breiðþotur í flugið til San Francisco sem eru mun sparneyttari en hinar 19 ára gömlu Boeing 767 þotur Icelandair. Og meðan Aer Lingus flýgur til Kaliforníu daglega þá fara þotur Icelandair þangað annan hvern dag og þurfa því að bíða úti á milli ferða og nýtist ekkert í millitíðinni. Einnig gætu hvíldarákvæði áhafna Icelandair verið strangari sem hefur líka neikvæð áhrif.

Íslenska flugfélagið þarf þá hærri meðalfargjöld en í ljósi harðrar samkeppni við WOW á flugleiðinni í fyrra þá gæti farmiðaverðið verið of lágt. Og reyndar eru vísbendingar um að það hafi heldur ekki verið nógu hátt fyrir WOW air því félagið lagði niður flugið til borgarinnar í lok síðasta árs og einbeitti sér af Los Angeles í staðinn. Sætanýtingin hjá WOW air á fyrsta fjórðungi síðasta árs var þó miklu hærri en hjá Icelandair eða um 83 prósent. .

En þó farþegaflug Icelandair hafi ekki skilað nægjanlega miklu þá er ljóst að félagið var umsvifamikið í fraktflutningum til San Francisco. Á fyrsta fjórðungi flutti félagið 324 tonn til og frá borginni sem jafngildir um tíund af öllum fraktflutningum félagsins til Bandaríkjanna á tímabilinu. Til samanburðar þá stóð farþegaflugið til San Francisco undir um 7 prósentum af heildarsætaframboði félagsins til og frá bandarískum áfangastöðum á þessum tímabili.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista

Nýtt efni

Áður en skemmtiferðaskipin taka að fylla götur Ísafjarðar af forvitnum ferðalöngum eru tvær helgar að vori sem fylla bæinn af heldur ólíkum hópum fólks. Sú fyrri er páskahelgin þegar tónlistarfólk og áhangendur þeirra þyrpast í bæinn til að taka þátt í rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, og sú síðari er Fossavatnshelgin, sem fór fram …

Tekjur Finnair drógust saman um tvö prósent á fyrsta fjórðungi ársins þrátt fyrir að finnska flugfélagið hafi aukið framboðið. Skýringin á samdrættinum liggur í verkföllum, verri sætanýtingu og lægri tekjum af fraktflutningum samkvæmt uppgjöri félagsins sem birt var í morgun. Rekstrarkostnaður Finnair á fyrsta ársfjórðungi var á pari við sama tímabil í fyrra og tapaði …

Allt þar til að Boeing Max krísan hófst, í ársbyrjun 2019, framleiddi Boeing fleiri þotur en keppinauturinn, Airbus. Kyrrsetningar og endurteknir framleiðslugallar hafa hins vegar orðið til þess að hægt hefur á framleiðslunni í verksmiðlum Boeing og eftirspurnin minnkað. Í fyrra framleiddi Airbus 735 þotur en Boeing 528 og mun bilið að öllu óbreyttu breikka …

Fataverslunin Húrra Reykjavík opnar í brottfararsal Keflavíkurflugvallar í vor og verður þar boðið upp á úrval af fatnaði og skóm frá vinsælum vörumerkjum fyrir farþega á leið úr landi. „Við erum að stíga stór skref með opnun þessarar nýju og glæsilegu verslunar, sem á sér stað í tilefni af 10 ára afmæli fyrirtækisins. Þetta er …

MYND: ÓJ

„Þetta er ein heitasta gjafavara Íslands, það get ég sagt fullum fetum. Seljum mikið á netinu hjá okkur út um allan heim,“ segir Baldur Ólafsson, markaðsstjóri Bónus, við fyrirspurn FF7 um vinsældir burðarpoka Bónus meðal ferðamanna.  Áberandi er við verslanir Bónus í miðborginni að ferðamenn kaupa þar gjarnan marga burðarpoka úr endurefni efni sem skarta …

Koffínlausar kaffibaunir eru hefðbundnar kaffibaunir þar sem beiskjuefnið og örvandi hlutinn koffín hefur verið fjarlægt. Útbreiddasta og ódýrasta ferlið við að losa baunirnar við koffínið er hins vegar orðið umdeilt þar sem efnasambönd sem við það eru notuð eru nú tengd við ýmsa heilsufarskvilla.Hægt er að beita nokkrum aðferðum við að losa kaffibaunir við koffín. …

Þrjátíu og átta trilljónir er tala sem er svolítið erfitt að skilja. Trilljón er notað í Bandaríkjunum yfir það sem við Íslendingar köllum billjón, og billjón er þúsund milljarðar, eða milljón milljónir. Á núverandi gengi eru 38 trilljónir Bandaríkjadala sama og 5.320 billjónir íslenskra króna, eða 5,3 milljón milljarðar.  Það er gott að hafa þetta …

Borgaryfirvöld í Lissabon hafa samþykkt að hækka gistináttagjald úr 2 í 4 evrur. Gjaldtaka nær ekki til tjaldstæða. Þá hefur komugjald á skipafarþega verið hækkað úr 1 í 2 evrur. Tillaga um að hækka það gjald í 4 evrur var felld.  Lusa-fréttastofan hefur eftir Carlos Moedas, borgarstjóra, að það sé „sanngjarnt fyrir borgina og íbúa …