Samstarf Icelandair og JetBlue óbreytt

Nýtt samkomulag milli Norwegian og bandaríska flugfélagsins JetBlue hefur engin áhrif á áralanga samvinnu bandaríska félagsins við Icelandair.

Airbus þotur JetBlue. Mynd: Jetblue

Frá og með næsta sumri geta farþegar Norwegian og JetBlue tengt saman flugferðir félaganna tveggja á einum flugmiða. Þannig geta farþegar Norwegian flogið með félaginu til Bandaríkjanna og þaðan farið í tengiflug innan Norður-Ameríku og jafnvel til Mið- eða Suður-Ameríku. Á sama hátt geta farþegar vestanhafs flogið með JetBlue til flugvallar þaðan sem Norwegian flýgur þeim svo yfir Atlantshafið til Evrópu. Um leið og samningurinn var kynntur í hádeginu í gær þá rauk hlutabréfaverð Norwegian upp um en lækkaði svo aftur. Það hefur svo hækkað á ný í dag eftir að félagið tilkynnti um sölu á fimm flugvélum. Sú sala mun vera kærkomin enda hefur lausafjárstaða Norwegian verið þröng síðustu misseri.

Hér heima lækkar hins vegar hlutabréfaverð Icelandair og í frétt Fréttablaðsins var lækkun gærdagsins meðal annars rakin til fyrrnefnds samkomulags Norwegian og JetBlue. Þess ber þó að geta að Icelandair hefur um árabil átt í samkonar samstarfi við bandaríska flugfélagið þar sem farþegar geta tengt saman ferðir flugfélaganna tveggja. Þannig hafa ferðir Icelandair til og frá Boston og New York ekki aðeins fengið flugnúmeri frá Icelandair heldur líka frá JetBlue. Á sama hátt hafa flug þess síðarnefnda til og frá bandarísku borgunum tveimur einnig verið merkt Icelandair. Engar breytingar verða á þessu samstarfi samkvæmt því sem segir í svari blaðafulltrúa JetBlue við fyrirspurn Túrista.