Selja færri Dominos pizzur vegna fækkunar ferðamanna

Dominos staðirnir á Íslandi eru til sölu. Núverandi eigandi tilgreinir sérstaklega að samdráttur í íslenskri ferðaþjónustu komi niður á veitingasölu.

Frá opnun útibús Domino´s í Malmö í Svíþjóð. Birgir Bieltvedt er lengst til vinstri en hann átti stóran hlut í Dominos á Íslandi og í Skandinavíu þegar breski armur Dominos keypti upp reksturinn að mestu leyti. Mynd: Domino´s UK

Íslenski markaðurinn er veikur um þessar mundir sem skrifast meðal annars á fækkun ferðamanna. Þetta kemur fram í nýbirtu uppgjöri breska Dominos sérleyfishafans sem á 95 prósent í rekstri pizzuframleiðandans á Íslandi. Sölutekjur Dominos hér á landi lækkuðu vegna samdráttarins um eitt prósent í krónum talið en rúmlega 8 prósent þegar litið er framhjá gengisbreytingu frá sama tíma í fyrra.

Stóru fréttirnir í tilkynningu Dominos í Bretlandi í morgun eru þó þær að fyrirtækið ætlar að selja reksturinn á öllum Norðurlöndunum og þar á meðal á Íslandi. Í tilkynningu segir að breski sérleyfishafinn sé einfaldlega ekki heppilegasti eigandinn að útibúum Dominos utan Bretlands.

Dominos í Bretlandi keypti 51 prósent hlut í Dominos á Íslandi haustið 2016 og ári síðar bætti félagið við 44 prósentum. Rekstur íslenska sérleyfishafans náði þá líka til Noregs og Svíþjóðar.