Síðustu ferðirnar til Sviss

Á laugardag fljúga tvær þotur easyJet frá Keflavíkurflugvelli og áleiðis til Genf og Basel. Þær munu ekki snúa aftur í næstu viku því forsvarsfólk félagsins ætlar að láta gott heita í flugi milli Íslands og Sviss.

Frá Basel í Sviss. Mynd: Ferðamálaráð Basel

Það var sumarbyrjun 2014 sem easyJet hóf að fljúga beint hingað til lands frá Basel í norðvesturhluta Sviss. Þá stóð til að fljúga aðeins yfir háannatímann í ferðaþjónustunni en stjórnendur breska lággjaldaflugfélagsins ákváðu fljótlega að starfrækja flugleiðina allt árið. Og þeir bættu meira að segja við flugi hingað frá Genf stuttu síðar. Þar með komust á beinar flugsamgöngur milli Íslands og Sviss yfir vetrarmánuðina og fjöldi svissneskra ferðamanna hér þrefaldaðist á þessum árstíma.

Það reyndist þó ekki nóg til að flugleiðunum báðum væri haldið úti allt árið um kring. Síðustu ár hefur easyJet nefnilega gert hlé á Íslandsfluginu frá Sviss frá yfir háveturinn en á næsta ári er svo ekkert Íslandsflug á dagskrá easyJet í Sviss líkt og Túristi hefur áður greint frá. Þar með falla niður flugsamgöngur héðan til Basel en áfram er hægt að komst til Genfar yfir sumarið með Icelandair.

Síðustu brottfarir easyJet til Sviss eru á dagskrá á laugardag og er uppselt í ferðina til Genfar en sætið til Basel kostar um 21 þúsund krónur.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista