Skera frekar niður styttri flugleiðir

Þotur Norwegian fljúga hingað til lands frá nokkrum evrópskum flugvöllum. Framundan er niðurskurður á framboði þó ennþá liggi ekki fyrir hvaða flugleiðir detti út.

norwegian velar860
Mynd: Norwegian

Þrátt fyrir að Norwegian hafi fengið byr í seglin að undanförnu þá boðar stjórnarformaður félagsins aukið aðhald og segir að framboð á flugsætum félagsins verði dregið saman um tíund á næsta ári. Hvort það hefur einhver áhrif á Íslandsflug félagsins á eftir að koma í ljós en Norwegian er það flugfélag sem flytur flesta farþega milli Íslands og Spánar. Sumaráætlun Norwegian á næsta ári gerir ekki ráð fyrir áframhaldi á flugi hingað frá Madríd en reglulegar ferðir til Alicante og Barcelona eru á boðstólum. Auk þess munu þotur félagsins áfram fljúga hingað frá Ósló.

Í viðtali við Dagens Næringsliv í dag segir Niels Smedegaard, stjórnformaður Norwegian, að minna framboð komi fyrst og fremst fram á styttri flugleiðum en kannski líka á lengri leiðum. Síðustu ár hefur Norwegian aukið umsvif sín verulega í flugi yfir Norður-Atlantshafið og var í fyrra það evrópska flugfélag sem flutti flesta farþega til og frá JFK flugvelli í New York. Norska félagið hefur því veitt Icelandair töluverða samkeppni í flugi vestur um haf og meðal annars hafið flug til áfangastaða þar sem Icelandair var áður eina norræna flugfélagið, t.d. í Seattle og Denver. Miðað við fyrrnefndar yfirlýsingar stjórnarformanns norska félagsins eru þá minni líkur á að félagið dragi úr ferðunum til Bandaríkjanna.

Það er líka í takt við greiningu stórbankans HSBC sem reiknar með að Norwegian muni skera niður um 15 prósent innan Evrópu en halda fluginu vestur um haf óbreyttu. Það gæti þó breyst því stjórnarformaður Norwegian segir að félagið myndi selja frá sér hluta af Dreamliner þotunum, sem eru notaðar í Ameríkuflugið, ef rétt verð fæst fyrir þær.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista