Skoða stöðuna í kjölfar gjaldþrots keppinautar

Arion banki er ekki sá eini sem núna reynir að koma norrænum ferðaskrifstofum í verð.

Casa Cook á Ibiza er eitt af þeim hótelum sem Vingresor, dótturfélag Thomas Cook, rekur við Miðjarðarhafið. Mynd: Ving

Umsvif breska ferðaskipuleggjandans Thomas Cook náðu langt út fyrir heimalandið. Fyrirtækið rak til að mynda nokkrar af stærstu ferðaskrifstofum Norðurlanda. Starfsemi þeirra stöðvaðist í sólarhring eftir gjaldþrot móðurfélagsins fyrir hálfum mánuði síðan en sala á sólarlandaferðum og öðrum reisum er nú í fullum gangi. Það liggur þó fyrir að fyrirtækin eru til sölu en rekstur Thomas Cook í Skandinavíu mun ganga vel samkvæmt því sem fram hefur komið í viðtölum við forsvarsmenn fyrirtækjanna. Óvissan er þó mikil, t.a.m. vegna samninga við ný flugfélög og gististaði og eins vegna skuldbindinga gagnvart gamla móðurfélaginu.

Skiptistjóri Thomas Cook í Bretlandi er þó ekki sá eini sem reynir þessa dagana að koma norrænum ferðaskrifstofum í verð. Allt frá því að Arion banki tók í sumarbyrjun yfir þau sjö fyrirtæki sem áður tilheyrðu Primera Travel Group, sem Andri Már Ingólfsson átti, þá hefur bankinn reynt að finna þeim nýja eigendur.

Jón Karl Ólafsson, stjórnarformaður ferðaskrifstofanna, segir aðspurður um stöðuna á skandinavíska ferðamarkaðnum í dag að hún sé áhugaverð. „Það er ljóst að menn munu aðeins þurfa að skoða stöðuna. Það er kannski fyrst og fremst óljóst hvernig framhaldið verður hjá Spies í Danmörku og öðrum Thomas Cook fyrirtækjum. Það verður væntanlega að bíða aðeins eftir afstöðu skiptaráðanda móðurfélags áður en félögin verði tilbúin til sölu. Það skapast ákveðin tækifæri við þetta líka,“ segir Jón Karl og bætir því við að nokkrir áhugasamir aðilar skoði ferðaskrifstofurnar sem hann fer fyrir en ekki sé komin nein niðurstaða í málin.

Ferðaskrifstofur eru þessa dagana að leggja lokahönd á sumarprógramm næsta árs og að sögn Jón Karls þá flækist söluferlið ekki fyrir þeirri vinnu. „Við keyrum rekstur fyrirtækisins með eðlilegum hætti og framleiðsla fyrir næsta ár í fullum gangi og forsala á ferðum er þegar hafin.“ Meðal þeirra ferðaskrifstofa sem nú tilheyra Arion banka eru Heimsferðir og Terra Nova.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista