Skoða stöðuna í kjölfar gjald­þrots keppi­nautar

Arion banki er ekki sá eini sem núna reynir að koma norrænum ferðaskrifstofum í verð.

Casa Cook á Ibiza er eitt af þeim hótelum sem Vingresor, dótturfélag Thomas Cook, rekur við Miðjarðarhafið. Mynd: Ving

Umsvif breska ferða­skipu­leggj­andans Thomas Cook náðu langt út fyrir heima­landið. Fyrir­tækið rak til að mynda nokkrar af stærstu ferða­skrif­stofum Norð­ur­landa. Starf­semi þeirra stöðv­aðist í sólar­hring eftir gjald­þrot móður­fé­lagsins fyrir hálfum mánuði síðan en sala á sólar­landa­ferðum og öðrum reisum er nú í fullum gangi. Það liggur þó fyrir að fyrir­tækin eru til sölu en rekstur Thomas Cook í Skandi­navíu mun ganga vel samkvæmt því sem fram hefur komið í viðtölum við forsvars­menn fyrir­tækj­anna. Óvissan er þó mikil, t.a.m. vegna samn­inga við ný flug­félög og gisti­staði og eins vegna skuld­bind­inga gagn­vart gamla móður­fé­laginu.

Skipt­i­stjóri Thomas Cook í Bretlandi er þó ekki sá eini sem reynir þessa dagana að koma norrænum ferða­skrif­stofum í verð. Allt frá því að Arion banki tók í sumar­byrjun yfir þau sjö fyrir­tæki sem áður tilheyrðu Primera Travel Group, sem Andri Már Ingólfsson átti, þá hefur bankinn reynt að finna þeim nýja eigendur.

Jón Karl Ólafsson, stjórn­ar­formaður ferða­skrif­stof­anna, segir aðspurður um stöðuna á skandi­nav­íska ferða­mark­aðnum í dag að hún sé áhuga­verð. „Það er ljóst að menn munu aðeins þurfa að skoða stöðuna. Það er kannski fyrst og fremst óljóst hvernig fram­haldið verður hjá Spies í Danmörku og öðrum Thomas Cook fyrir­tækjum. Það verður vænt­an­lega að bíða aðeins eftir afstöðu skipta­ráð­anda móður­fé­lags áður en félögin verði tilbúin til sölu. Það skapast ákveðin tæki­færi við þetta líka,” segir Jón Karl og bætir því við að nokkrir áhuga­samir aðilar skoði ferða­skrif­stof­urnar sem hann fer fyrir en ekki sé komin nein niður­staða í málin.

Ferða­skrif­stofur eru þessa dagana að leggja loka­hönd á sumar­pró­gramm næsta árs og að sögn Jón Karls þá flækist sölu­ferlið ekki fyrir þeirri vinnu. „Við keyrum rekstur fyrir­tæk­isins með eðli­legum hætti og fram­leiðsla fyrir næsta ár í fullum gangi og forsala á ferðum er þegar hafin.” Meðal þeirra ferða­skrif­stofa sem nú tilheyra Arion banka eru Heims­ferðir og Terra Nova.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista