Svo góð er sætanýtingin í innanlandsfluginu ekki

Það er ekki þannig að átta af hverjum tíu sætum í flugvélum Air Iceland Connect séu að jafnaði skipuð farþegum þegar flogið er til og frá Akureyri og Egilsstöðum.

Bombardier flugvél Air Iceland Connect. Mynd: Air Iceland Connect

Upplýsingar um fjölda farþega í flugi til og frá landinu hafa ekki verið opinberar hér á landi og nýverið komst úrskurðarnefnd um upplýsingamál að þeirri niðurstöðu Isavia bæri ekki að afhenda Túrista þess háttar gögn. Í frétt Morgunblaðsins í dag, um samanburð á losun vegna bíla- og flugumferðar, segir hins vegar að sætanýting í flugi Air Iceland Connect, í flugi til Akureyrar og Egilsstaða, sé um 80 prósent samkvæmt upplýsingum frá Isavia.

Þessi tala vekur ekki aðeins athygli vegna þess hve fátíð svona upplýsingagjöf er heldur líka vegna þess að sætanýting hjá Air Iceland Connect er vanalega í kringum sjötíu prósent samkvæmt flutningatölum sem Icelandair Group, móðurfélag flugfélagsins, birtir mánaðarlega. Og áætlunarferðir norður og austur eru stór hluti af heildarumsvifunum í innanlandsfluginu.

„Ég vildi að við gætum sýnt áttatíu prósent sætanýtingu en það er því miður ekki raunveruleikinn,“ segir Árni Gunnarsson, forstjóri Air Iceland Connect, í svari til Túrista um tölurnar sem fram koma í Morgunblaðinu í dag. Árni bætir því hins vegar við að þrátt fyrir að nýtingin sé nokkru minni þá er ekki þar með sagt að innanlandsflugið geti ekki verið umhverfisvænni samgöngumáti en þar sem allt að tveir eru á ferð í einkabíl.

Aðspurður segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, að tölurnar í fyrrnefndri frétt séu ekki eiginlegar sætanýtingartölur frá Isavia. „Þarna er um að ræða forsendur sem gefnar voru til útreikninga í dæmi sem tekið var í erindi Sigrúnar Jakobsdóttur, framkvæmdastjóra flugvallasviðs Isavia, á Arctic Circle fyrr í þessum mánuði. Í erindinu ræddi Sigrún um losun gróðurhúsalofttegunda í samgöngum milli landshluta á Íslandi og samanburð á samgöngumátum. Við útreikninga í máli sínu gaf Sigrún sér ákveðnar forsendur og þar á meðal sætanýtingu í innanlandsflugi milli staða. Ekki var því um eiginlegar og staðfestar tölur frá okkur að ræða,“ segir Guðjón.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista