Svo góð er sæta­nýt­ingin í innan­lands­fluginu ekki

Það er ekki þannig að átta af hverjum tíu sætum í flugvélum Air Iceland Connect séu að jafnaði skipuð farþegum þegar flogið er til og frá Akureyri og Egilsstöðum.

Bombardier flugvél Air Iceland Connect. Mynd: Air Iceland Connect

Upplýs­ingar um fjölda farþega í flugi til og frá landinu hafa ekki verið opin­berar hér á landi og nýverið komst úrskurð­ar­nefnd um upplýs­ingamál að þeirri niður­stöðu Isavia bæri ekki að afhenda Túrista þess háttar gögn. Í frétt Morg­un­blaðsins í dag, um saman­burð á losun vegna bíla- og flug­um­ferðar, segir hins vegar að sæta­nýting í flugi Air Iceland Connect, í flugi til Akur­eyrar og Egils­staða, sé um 80 prósent samkvæmt upplýs­ingum frá Isavia.

Þessi tala vekur ekki aðeins athygli vegna þess hve fátíð svona upplýs­inga­gjöf er heldur líka vegna þess að sæta­nýting hjá Air Iceland Connect er vana­lega í kringum sjötíu prósent samkvæmt flutn­inga­tölum sem Icelandair Group, móður­félag flug­fé­lagsins, birtir mánað­ar­lega. Og áætl­un­ar­ferðir norður og austur eru stór hluti af heild­ar­um­svif­unum í innan­lands­fluginu.

„Ég vildi að við gætum sýnt áttatíu prósent sæta­nýt­ingu en það er því miður ekki raun­veru­leikinn,” segir Árni Gunn­arsson, forstjóri Air Iceland Connect, í svari til Túrista um tölurnar sem fram koma í Morg­un­blaðinu í dag. Árni bætir því hins vegar við að þrátt fyrir að nýtingin sé nokkru minni þá er ekki þar með sagt að innan­lands­flugið geti ekki verið umhverf­i­s­vænni samgöngu­máti en þar sem allt að tveir eru á ferð í einkabíl.

Aðspurður segir Guðjón Helgason, upplýs­inga­full­trúi Isavia, að tölurnar í fyrr­nefndri frétt séu ekki eigin­legar sæta­nýt­ing­ar­tölur frá Isavia. „Þarna er um að ræða forsendur sem gefnar voru til útreikn­inga í dæmi sem tekið var í erindi Sigrúnar Jakobs­dóttur, fram­kvæmda­stjóra flug­valla­sviðs Isavia, á Arctic Circle fyrr í þessum mánuði. Í erindinu ræddi Sigrún um losun gróð­ur­húsaloft­teg­unda í samgöngum milli lands­hluta á Íslandi og saman­burð á samgöngu­mátum. Við útreikn­inga í máli sínu gaf Sigrún sér ákveðnar forsendur og þar á meðal sæta­nýt­ingu í innan­lands­flugi milli staða. Ekki var því um eigin­legar og stað­festar tölur frá okkur að ræða,“ segir Guðjón.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista