Taka Airbus þotur til skoðunar

Stjórnendur SWISS tóku þá ákvörðun í gær að setja allar Airbus A220 flugvélar sínar á jörðina vegna vandræða með hreyfla. Air Baltic nýtir flugvélar af sömu gerð í Íslandsflug sitt frá Riga en þó með annarri hreyflategund.

Ein af Bombardier þotum SWISS sem nú eru markaðssettar sem Airbus þotur. MYND:SWISS

Töluverðar raskanir hafa orðið á flugáætlun svissneska flugfélagsins SWISS frá því í gær þegar stjórnendur þess ákváðu að kyrrsetja allar tuttugu og nú Airbus A220 þotur félagsins samstundis. Netmiðillinn Allt um flug sagði fyrst frá.

Gripið var til kyrrsetningar eftir að upp kom bilun í hreyfli einnar þotu svissneska flugfélagsins og mun þetta vera í áttunda sinn á einu ári sem sambærileg vandamál koma upp samkvæmt frétt Bloomberg. Airbus vélarnar fara nú ein af annarri í skoðun hjá flugvirkjum SWISS og munu þær fyrstu nú þegar vera komnar í loftið á ný. Engu að síður hefur þurft að fella niður um eitt hundrað brottfarir á vegum SWISS.

Svissneska flugfélagið flýgur ekki hingað til lands en Air Baltic nota reglulega Airbus A220 þotur áætlunarflug sitt frá Riga til Íslands. Hreyflar þeirra flugvéla eru, samkvæmt frétt Checkin í Danmörku, frá sama framleiðanda en af annarri tegund. Airbus A220 þoturnar voru áður þekktar undir heitinu Bombardier CSeries og eru framleiddar af kanadíska framleiðandanum Bombardier i samstarfi við Airbus.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista