Taka Airbus þotur til skoð­unar

Stjórnendur SWISS tóku þá ákvörðun í gær að setja allar Airbus A220 flugvélar sínar á jörðina vegna vandræða með hreyfla. Air Baltic nýtir flugvélar af sömu gerð í Íslandsflug sitt frá Riga en þó með annarri hreyflategund.

Ein af Bombardier þotum SWISS sem nú eru markaðssettar sem Airbus þotur. MYND:SWISS

Tölu­verðar rask­anir hafa orðið á flugáætlun sviss­neska flug­fé­lagsins SWISS frá því í gær þegar stjórn­endur þess ákváðu að kyrr­setja allar tuttugu og nú Airbus A220 þotur félagsins samstundis. Netmið­illinn Allt um flug sagði fyrst frá.

Gripið var til kyrr­setn­ingar eftir að upp kom bilun í hreyfli einnar þotu sviss­neska flug­fé­lagsins og mun þetta vera í áttunda sinn á einu ári sem sambærileg vandamál koma upp samkvæmt frétt Bloom­berg. Airbus vélarnar fara nú ein af annarri í skoðun hjá flug­virkjum SWISS og munu þær fyrstu nú þegar vera komnar í loftið á ný. Engu að síður hefur þurft að fella niður um eitt hundrað brott­farir á vegum SWISS.

Sviss­neska flug­fé­lagið flýgur ekki hingað til lands en Air Baltic nota reglu­lega Airbus A220 þotur áætl­un­ar­flug sitt frá Riga til Íslands. Hreyflar þeirra flug­véla eru, samkvæmt frétt Checkin í Danmörku, frá sama fram­leið­anda en af annarri tegund. Airbus A220 þoturnar voru áður þekktar undir heitinu Bomb­ar­dier CSeries og eru fram­leiddar af kanadíska fram­leið­and­anum Bomb­ar­dier i samstarfi við Airbus.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista