Þéttsetnari þotur milli Írlands og Íslands

WOW air sat lengi eitt að flugleiðinni til höfuðborgar Írlands en fékk samkeppni frá Icelandair í fyrravor. Þá fjölgaði farþegum töluvert en þeim hefur fækkað á ný en þó minna en sem nemur fækkun ferða.

Frá Dublin. Mynd: Ferðamálráð Dublin

Þrátt fyrir nálægðina þá takmörkuðust flugsamgöngur milli Íslands og Írlands lengi vel við leiguflug ferðaskrifstofa. Á því varð breyting í sumarbyrjun 2015 þegar WOW air hóf að fljúga til borgarinnar og fyrst um sinn voru brottfarirnar þrjár í viku. Þeim fjölgaði hins vegar hratt og þannig flugu þotur WOW níu sinnum í viku til Dublin sumarið 2017 og einnig bættist við flug til borgarinnar Cork.

Þessi miklu umsvif hafa ekki farið framhjá stjórnendum Icelandair því Dublin bættist við leiðakerfi félagsins vorið 2018 og þá voru brottfarirnar sex í viku. Í tilkynningu frá Icelandair á sínum tíma sagði reyndar að hjá félagið hefði lengi verið horft áætlunarferða til Dublin. Það var þó fyrst eftir að WOW hafði stóraukið umsvif á Írlandi þar sem Icelandair lét vaða.

Og með tíðum ferðum félaganna tveggja þá fjölgaði farþegum verulega. Á öðrum ársfjórðungi í fyrra flugu nærri 57 þúsund farþegar milli Dublin og Keflavíkurflugvallar en á sama tíma árið á undan var fjöldinn ríflega helmingi minni eða 26 þúsund farþegar samkvæmt tölum írskra flugmálayfirvalda. Á öðrum ársfjórðungi þessa árs var hins vegar ekkert WOW air og fór farþegafjöldinn niður í 37 þúsund farþega. Samdrátturinn nemur um 17 prósentum en aftur á móti fækkaði ferðunum um rúman þriðjung samkvæmt talningu Túrista.

Það segir okkur að sætanýtingin í Írlandsflugi Icelandair batnaði verulega fyrstu þrjá mánuðina eftir fall WOW air. Farþegatölur fyrir þriðja ársfjórðung liggja ekki fyrir á írskum flugmálayfirvöldum en þess ber að geta að svona upplýsingar eru ekki opinberar hér á landi og hefur Túristi árangurslaust reynt að fá tölurnar upp á borðið.

Fækkun írskra hótelnótta hér á landi frá apríl til júní í ár var 18 prósent samkvæmt tölum Hagstofunnar. Það er hlutfallslega sama þróun og varð í fjölda farþega því þeim fækkaði um sautján prósent á tímabilinu líkt og áður segir.

Tvö af umsvifamestu flugfélögum Íra, Aer Lingus og Ryanair, hafa ekki stundað Íslandsflug en stjórnendur þess síðarnefnda áttu fundi með íslenskum stjórnvöldum síðastliðinn vetur.