Þétt­setnari þotur milli Írlands og Íslands

WOW air sat lengi eitt að flugleiðinni til höfuðborgar Írlands en fékk samkeppni frá Icelandair í fyrravor. Þá fjölgaði farþegum töluvert en þeim hefur fækkað á ný en þó minna en sem nemur fækkun ferða.

Frá Dublin. Mynd: Ferðamálráð Dublin

Þrátt fyrir nálægðina þá takmörk­uðust flug­sam­göngur milli Íslands og Írlands lengi vel við leiguflug ferða­skrif­stofa. Á því varð breyting í sumar­byrjun 2015 þegar WOW air hóf að fljúga til borg­ar­innar og fyrst um sinn voru brott­far­irnar þrjár í viku. Þeim fjölgaði hins vegar hratt og þannig flugu þotur WOW níu sinnum í viku til Dublin sumarið 2017 og einnig bættist við flug til borg­ar­innar Cork.

Þessi miklu umsvif hafa ekki farið framhjá stjórn­endum Icelandair því Dublin bættist við leiða­kerfi félagsins vorið 2018 og þá voru brott­far­irnar sex í viku. Í tilkynn­ingu frá Icelandair á sínum tíma sagði reyndar að hjá félagið hefði lengi verið horft áætl­un­ar­ferða til Dublin. Það var þó fyrst eftir að WOW hafði stór­aukið umsvif á Írlandi þar sem Icelandair lét vaða.

Og með tíðum ferðum félag­anna tveggja þá fjölgaði farþegum veru­lega. Á öðrum ársfjórð­ungi í fyrra flugu nærri 57 þúsund farþegar milli Dublin og Kefla­vík­ur­flug­vallar en á sama tíma árið á undan var fjöldinn ríflega helm­ingi minni eða 26 þúsund farþegar samkvæmt tölum írskra flug­mála­yf­ir­valda. Á öðrum ársfjórð­ungi þessa árs var hins vegar ekkert WOW air og fór farþega­fjöldinn niður í 37 þúsund farþega. Samdrátt­urinn nemur um 17 prósentum en aftur á móti fækkaði ferð­unum um rúman þriðjung samkvæmt taln­ingu Túrista.

Það segir okkur að sæta­nýt­ingin í Írlands­flugi Icelandair batnaði veru­lega fyrstu þrjá mánuðina eftir fall WOW air. Farþega­tölur fyrir þriðja ársfjórðung liggja ekki fyrir á írskum flug­mála­yf­ir­völdum en þess ber að geta að svona upplýs­ingar eru ekki opin­berar hér á landi og hefur Túristi árang­urs­laust reynt að fá tölurnar upp á borðið.

Fækkun írskra hótelnótta hér á landi frá apríl til júní í ár var 18 prósent samkvæmt tölum Hagstof­unnar. Það er hlut­falls­lega sama þróun og varð í fjölda farþega því þeim fækkaði um sautján prósent á tíma­bilinu líkt og áður segir.

Tvö af umsvifa­mestu flug­fé­lögum Íra, Aer Lingus og Ryanair, hafa ekki stundað Íslands­flug en stjórn­endur þess síðar­nefnda áttu fundi með íslenskum stjórn­völdum síðast­liðinn vetur.