Tjá sig ekki um vanskil á flugvöllum landsins

Rekstur flugfélaga er víða þungur þessi misserin og nýverið þurfti Isavia að færa niður rúmlega tveggja milljarða kröfu vegna ógreiddra flugvallagjalda WOW air. Isavia veitir engar upplýsingar um hvort notendagjöld flugfélaga eru öll í skilum í dag.

Þota WOW sem var kyrrsett eftir fall félagsins í lok mars. Mynd: Gunnlaugur Rögnvaldsson

Á síðustu tveimur árum hafa stjórnendur Isavia þrívegis gripið til þess ráðs að kyrrsetja flugvélar vegna vangreiddra flugvallagjalda. Fyrst var snjóplógum Isavia á Keflavíkurflugvelli styllt upp við þotu Airberlin í lok október 2017 og komst flugvélin ekki í hendur þrotabús félagsins fyrir tæpum tveimur vikum síðar eftir að skuldin hafði verið gerð upp. Í byrjun þessa árs var svo komið af samskonar aðgerð á Reykjavíkurflugvelli vegna nærri hundrað milljón krónar skuldar Ernis sem samið var um.

Nýjasta dæmið er svo Airbus þota sem WOW air var með á leigu en réttur Isavia til að stöðva ferðir þeirrar vélar fór um dómskerfið og endaði með því að eigandinn fékk hana í hendur á ný nú í sumar. Isavia sat hins vegar uppi með ógreidda 2,1 milljarðs króna kröfu. Forsvarsfólk Isavia náði þó ekki taki á einni af þotum Primera Air í fyrrahaust. Daginn sem félagið fór í þrot kom nefnilega engin af vélum félagsins, sem var í eigu Andra Más Ingólfssonar, til Íslands og tugmilljóna skuld þess lenti á hinu opinbera Isavia.

Nýleg dæmi um vanskil á flugvallagjöldum hér á landi eru því nokkur. Isavia vill þó ekki upplýsa hvort öll flugfélög sem nýta sér flugvelli landsins séu í skilum í dag. Í svari fyrirtækisins, við fyrirspurn Túrista, segir aðeins að Isavia tjái sig ekki um einstaka viðskiptavini sína eða hóp viðskiptavina og stöðu þeirra.

Af þeim evrópsku flugfélögum sem hafa orðið gjaldþrota í ár, að WOW undanskildu, þá var það eingöngu Germania sem stundaði reglulegt Íslandsflug. Þotur slóvenska flugfélagsins Adria Airways komu hingað í stakar ferðir en hvorki flugfélög Thomas Cook samsteypunnar né frönsku flugfélögin XL Airways og Aigle Azur voru fastagestir við Keflavíkurflugvöll.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista