Upplýsingar um farmiðaverð gætu komið genginu á flug

Gengi bréfa í SAS og Norwegian hefur hækkað síðustu daga eftir að félögin birtu tölur sem sýndu meðal annars að fargjöldin hefðu hækkað í síðasta mánuði. Icelandair birtir flutningatölur sínar fyrir september á eftir en þar verður ólíklega nokkuð að finna um verðþróun.

Mynd: Icelandair

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um 2,5 prósent í dag og hefur verðmæti þessa stærsta ferðaþjónustufyrirtækis landsins dregist saman um þriðjung frá áramótum. Það hefur líka verið á brattan að sækja hjá SAS og Norwegian ár. Gengi SAS hefur lækkað um 35 prósent og verðmæti þess síðarnefnda hefur lækkað um 39 prósent frá ársbyrjun.

Þessi tvö stærstu flugfélög Norðurlanda hafa þó rétt aðeins úr kútnum eftir birtingu á flutningatölum fyrir september. Þannig hefur gengi Norwegian hækkað um tvö og hálft prósent frá því á föstudagsmorgun þegar félagið birti sínar tölur fyrir nýliðinn mánuð. Þar kom fram að sætanýtingin hækkaði aðeins og það gerðu einnig tekjur á hvern floginn kílómetra. Þær fóru upp um sex af hundraði og meðalfargjaldið um fjögur prósent. Haft var eftir forstjóra Norwegian að þessar tölur væri í takt við áætlanir um að setja hagnað, frekar en vöxt, í forgang enda væri þetta sjötti mánuðurinn í röð þar sem tekjur á hvern farþega færu hækkandi.

Í morgun var svo komið að SAS að birta sínar tölur fyrir september og þær leiddu í ljós að meðalfargjaldið hækkaði ennþá meira þar á bæ eða um 5,4 prósent. Það er töluverð viðbót og hefur gengi bréfa í SAS hækkað um nærri átta af hundraði þegar þetta er skrifað og stutt er í að kauphöllin í Stokkhólmi loki. Reyndar tilkynnti SAS jafnframt í morgun að félagið ætlaði sér að fara í skuldabréfaútgáfu á næstunni sem kann líka að hafa haft sín áhrif.

Í lok vinnudags í dag er svo komið að birtingu farþegatalna Icelandair. Stjórnendur félagsins hafa hins vegar ekki tekið sér starfsbræður sína hjá SAS og Norwegian til fyrirmyndar hvað varðar upplýsingagjöf. Því verður ólíklega eitthvað um fargjaldaþróun að finna í tölum Icelandair á eftir en telja má líklegt að meðalfarmiðinn hafi hækkað eitthvað hjá félaginu eftir brotthvarf WOW air og aukna áherslu á farþegaflug til og frá Íslandi.

Það mun þó ekki vera megin skýringin á því að sætanýtingin hjá Icelandair lækkaði þónokkuð júlí og ágúst. Í tilkynningu sem fylgdi ágúst tölunum segir að kyrrsetning MAX þotanna hafi haft neikvæð áhrif á nýtinguna. Ef fargjöldin hafa hins vegar hækkað í síðasta mánuði þá gætu fjárfestar tekið þeim tíðindum með álíka jákvæðum hætti og raunin var í tilfelli Norwegian og SAS. Á það mun þó ólíklega reyna og gengi bréfa Icelandair gæti því heldur ráðist af því hvort eitthvað komi fram í tilkynningu dagsins um stöðuna á MAX þotunum og hvort biðin eftir þeim lengist.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista