Yrði fyrsta Four Season hótelið á Norðurlöndum

Nýr eigandi Geirsgötu 11 á Miðbakkanum við Reykjavíkurhöfn íhugar að opna þar fimm stjörnu hótel. Þess háttar kallar á breytt skipulag og ef af verður þá verða aðeins nokkuð hundruð metrar á milli fimm stjörnu hótela á hafnarbakkanum.

Frá hóteli Four Season í París. Mynd: Four Season

Hin 2.600 fermetra vöruskemma við Reykjavíkurhöfn er til leigu en þó ekki til langs tíma. Nýr eigendi hennar, malasíska fyrirtækjasamsteypan Berjaya, hefur nefnilega uppi áform um að reisa á lóðinni fimm stjörnu hótel undir merkjum Four Season. Þetta kemur fram í frétt RÚV. Berjaya Group festi auk þess nýverið kaup á 75 prósent hlut í Icelandairhótelunum sem reka meðal annars nokkur hótel í miðborg Reykjavíkur.

Þetta malasíska fyrirtæki, sem leitt er af Vincent Tan, á fjölda hótela í Asíu sem flest eru kennd við móðurfyrirtækið. Auk þess rekur fyrirtækið tvö Four Season hótel í Japan og útibúið í Reykjavík yrði þá það þriðja sem Tan og Berjaya opna í nafni hótelkeðjunnar. Þetta yrði jafnframt fyrsti gististaður Four Season á Norðurlöndum og einn fárra í norðurhluta Evrópu.

Áður hefur komið fram að deiliskipulag Reykjavíkurborgar gerir ekki ráð fyrir að fleiri hótel opni á þessum stað í höfuðborginni. Nokkuð hundruð metrum frá lóðinni sem um ræðir er verið að reisa Marriott Edition hótel sem verður fyrsta fimm stjörnu hótelið í Reykjavík. Þar verða hátt í þrjú hundruð herbergi.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista