Airbnb kannast ekki við tölur Hagstofunnar

Gistináttatölur Hagstofunnar sýna að sókn útlendinga í heimagistingu hefur dregist saman síðustu misseri. Á þeim markaði hefur Airbnb verið mjög aðsópsmikið en fyrirtækið hefur litlar upplýsingar veitt um umsvif sín og vill heldur ekki gefa neitt út á útreikninga Hagstofunnar.

reykjavik Tim Wright
Mynd: Tim Wright / Unsplash

Það eru vísbendingar um að umsvif Airbnb á íslenska gistimarkaðnum hafi dregist saman að undanförnu. Eftirlit með starfseminni var hert að frumkvæði ferðamálaráðherra og framboð á Airbnb gistingu hefur dregist saman samkvæmt því sem kom fram í nýlegri ferðaþjónustuskýrslu Landsbankans.

Í uppgjöri Hagstofunnar yfir fjölda gistinótta árið 2018 sagði að 3,3 prósent samdráttur hefði orðið „á stöðum sem miðla gistingu gegnum Airbnb og svipaðar síður.“ Niðursveiflan hefur aukist hraðar í ár því hún nemur 9,6 prósentum samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Á sama tíma hefur gistinóttum útlendinga á íslenskum hótelum aðeins fækkað um einn af hundraði þrátt fyrir fjórtán prósent fækkun erlendra ferðamanna.

„Við könnumst ekki við þessar tölur,“ segir blaðafulltrúi Airbnb í svari fyrirtækisins við fyrirspurn Túrista um hvort þar á bæ yrði vart við sambærilega niðursveiflu og fram kemur í tölum Hagstofunnar. „Þetta eru ekki raunveruleg gögn frá Airbnb,“ segir jafnframt í svarinu og þar er tekið fram að fyrirtækið afhendi Hagstofunni ekki fyrrnefndar tölur. Blaðafulltrúinn ítrekar að í skýringum Hagstofunnar er tekið fram að tölurnar eigi við um Airbnb og álíka heimasíður. „Þess vegna er ekki hægt að heimfæra þetta til okkar. Það er fullt af öðrum vefsíðum í boði,“ segir í svari bandarísku gistimiðlunarinnar. Ekki fást upplýsingar um hver þróunin er hjá fyrirtækinu.

Við útreikninga sína á umsvifum Airbnb og sambærilegum gistimiðlurum þá notast Hagstofan við virðisaukaskattskil viðkomandi fyrirtækja. Því samkvæmt lögum ber erlendum aðilum, eins og Airbnb, að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti hérlendis. Hagstofan tók þessa aðferðafræði upp fyrir tæpum tveimur árum síðan en áður studdust íslenskir greiningaraðilar aðallega við aðkeypt gögn frá fyrirtækinu Airdna. Þær tölur reyndust þó ofmeta umsvifin. Alla vega miðað við það sem lesa mátti út úr gloppóttri upplýsingagjöf Airbnb. Á sama tíma voru niðurstöður Hagstofunnar mun nærri lagi líkt og Túristi benti í fyrravor.

Sem fyrr segir er upplýsingagjöf Airbnb ekki í föstum skorðum og versnaði verulega eftir að umsvifin jukust hér á landi. Áður deildi fyrirtækið reglulega með Túrista nokkuð ítarlegum upplýsingum. Í fyrra kom þó út skýrsla frá Airbnb sem sýndi að íslenskir leigusalar voru þeir tekjuhæstu á heimsvísu þegar litið var til umsvifa ársins 2017. Sambærileg skýrsla kom hins vegar ekki út fyrir árið í fyrra og ekki hafa fengist skýringar á því.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista