Airbus áfram inn í myndinni þrátt fyrir bætur frá Boeing

Ákvörðun um samsetningu flugflota Icelandair til framtíðar var seinkað nú í haust vegna kyrrsetningar á MAX þotum félagsins. Nú hefur Boeing greitt flugfélaginu skaðabætur í tvígang vegna ástandsins á MAX.

MAX þotur, þar af þrjár merktar Icelandair, við verksmiðjur Boeing. MYND: SOUNDERBRUCE / CREATIVECOMMONS 4.0)

„Við erum ennþá að vinna samkvæmt þessum þremur sviðsmyndum sem við kynntum í vor, líka hvað varðar Airbus,“ segir Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, aðspurð um hvort samkomulag við Boeing, um greiðslu skaðabóta vegna MAX þotanna, tengist viðræðum um kaup á nýjum flugvélum. En líkt og Túristi greindi frá í síðustu viku þá er útlit fyrir að Icelandair sé einn fyrsti viðskiptavinur Boeing, jafnvel sá fyrsti, sem sækir bætur vegna MAX kyrrsetningarinnar. Á sama tíma er flugfélagið í fyrrnefndum viðræðum við báða flugvélaframleiðendur um kaup á þotum.

Áður hefur verið gefið út að stjórnendur Icelandair vinna út frá þremur mismunandi sviðsmyndum varðandi flota félagsins til næstu ára. Í fyrsta lagi að halda tryggð við Boeing, í öðru lagi að blanda saman Airbus og Boeing MAX þotum og í þriðja lagi að skipta alfarið yfir í Airbus á næstu árum.

Upphaflega áform Icelandair gerðu ráð fyrir að félagið hefði fjórtán MAX þotur í rekstri næsta sumar en núna er aðeins gert ráð fyrir níu þess háttar flugvélum. Það mun vera megin skýringin á því að félagið hefur tilkynnt 45 flugmönnum að þeir verði ekki endurráðnir næsta vor.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista