Allar flugferðir Bændaferða kolefnisjafnaðar

Framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar segir mikilvægt að fyrirtækið sjálft leggi sitt af mörkum í stað þess að láta viðskiptavininn einan bera ábyrgð á kolefnisjöfnuninni.

Mynd: Aman Bhargava / Unsplash

Frá og með áramótum verða allar flugferðir á vegum Bændaferða kolefnisjafnaðar með jöfnu framlagi þess sem ferðast og ferðaskrifstofunnar. Bændaferðir leggja kolefnisjöfnunina því ekki eingöngu á herðar viðskiptavina sinna eins og oft tíðkast.

Aðspurður um ástæður mótframlagsins þá segir Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri Bændaferða, að helsta röksemdin sé sú að þetta styðji við samfélagslega ábyrgð ferðaskrifstofunnar. „Fyrirtækin verða líka að leggja sitt af mörkum ekki bara skella ábyrgðinni á viðskiptavininn.“

Framlag viðskiptavina er innifalið í heildarverði ferða en í útreikningum á útblæstri er notast við reiknivél Alþjóða flugmálastofnunar. Verður kolefnið bundið með landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis en andvirði þess sem safnast í kolefnisjöfnuninni mun renna í sérstakan sjóð sem verður formlega settur á fót á vorhátíð Hey Iceland þann 2. apríl næstkomandi og verður fyrsta úthlutun úr sjóðnum í upphafi árs 2021.

„Við gerum okkur grein fyrir því að skógræktin dugar ekki ein og sér og þess vegna er markmiðið að fara blandaða leið og m.a. skoða betur útfærslur með endurheimt á votlendi þannig að kolefnisjöfnunin almennt sé ekki að taka svona langan tíma. Við ætlum að fá sérfræðinga með okkur í lið til að útfæra þetta betur með tillit til verkefna sem munu fá úthlutun úr sjóðnum. Í dag eru bændur í lykilstöðu við að binda kolefni í jörðu og því er þetta samstarf við grasrótina í fyrirtækinu mikilvægt,“ segir Sævar.

Bændaferðir og Hey Iceland eru vörumerki Ferðaþjónustu bænda hf. sem sérhæfir sig í ferðaþjónustu á landsbyggðinni og ferðum út fyrir landsteinana. Fyrirtækið hefur unnið eftir sjálfbærnistefnu frá árinu 2002 og er unnið að fleiri verkefnum innan þess sem snúa að því að draga úr kolefnisfótspori vegna ferðalaga.

Þannig var fyrsti rafbíla-ferðapakkinn fyrir erlenda viðskiptavini settur í loftið í samstarfi við Bílaleigu Akureyrar síðastliðið sumar. Þessi ferðapakki er sprottinn upp af verkefninu Hleðsla í hlaði, samstarfsverkefni Hey Iceland, Bændasamtaka Íslands og Orkuseturs sem hefur það markmið að fjölga hleðslustöðvum fyrir rafbíla í sveitum landsins.

Í dag eru tólf félagar innan Hey Iceland komnir með hleðslustöðvar og fer þeim fjölgandi sem opnar nýja möguleika fyrir þá sem vilja ferðast um landið á rafmagnsbíl.