Allar flug­ferðir Bænda­ferða kolefnis­jafn­aðar

Framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar segir mikilvægt að fyrirtækið sjálft leggi sitt af mörkum í stað þess að láta viðskiptavininn einan bera ábyrgð á kolefnisjöfnuninni.

Mynd: Aman Bhargava / Unsplash

Frá og með áramótum verða allar flug­ferðir á vegum Bænda­ferða kolefnis­jafn­aðar með jöfnu fram­lagi þess sem ferðast og ferða­skrif­stof­unnar. Bænda­ferðir leggja kolefnis­jöfn­unina því ekki eingöngu á herðar viðskipta­vina sinna eins og oft tíðkast.

Aðspurður um ástæður mótfram­lagsins þá segir Sævar Skaptason, fram­kvæmda­stjóri Bænda­ferða, að helsta röksemdin sé sú að þetta styðji við samfé­lags­lega ábyrgð ferða­skrif­stof­unnar. „Fyrir­tækin verða líka að leggja sitt af mörkum ekki bara skella ábyrgð­inni á viðskipta­vininn.”

Framlag viðskipta­vina er innifalið í heild­ar­verði ferða en í útreikn­ingum á útblæstri er notast við reiknivél Alþjóða flug­mála­stofn­unar. Verður kolefnið bundið með land­græðslu, skóg­rækt og endur­heimt votlendis en andvirði þess sem safnast í kolefnis­jöfn­un­inni mun renna í sérstakan sjóð sem verður form­lega settur á fót á vorhátíð Hey Iceland þann 2. apríl næst­kom­andi og verður fyrsta úthlutun úr sjóðnum í upphafi árs 2021.

„Við gerum okkur grein fyrir því að skóg­ræktin dugar ekki ein og sér og þess vegna er mark­miðið að fara blandaða leið og m.a. skoða betur útfærslur með endur­heimt á votlendi þannig að kolefnis­jöfn­unin almennt sé ekki að taka svona langan tíma. Við ætlum að fá sérfræð­inga með okkur í lið til að útfæra þetta betur með tillit til verk­efna sem munu fá úthlutun úr sjóðnum. Í dag eru bændur í lykil­stöðu við að binda kolefni í jörðu og því er þetta samstarf við gras­rótina í fyrir­tækinu mikil­vægt,” segir Sævar.

Bænda­ferðir og Hey Iceland eru vörumerki Ferða­þjón­ustu bænda hf. sem sérhæfir sig í ferða­þjón­ustu á lands­byggð­inni og ferðum út fyrir land­steinana. Fyrir­tækið hefur unnið eftir sjálf­bærni­stefnu frá árinu 2002 og er unnið að fleiri verk­efnum innan þess sem snúa að því að draga úr kolefn­is­fót­spori vegna ferða­laga.

Þannig var fyrsti rafbíla-ferðapakkinn fyrir erlenda viðskipta­vini settur í loftið í samstarfi við Bíla­leigu Akur­eyrar síðast­liðið sumar. Þessi ferðapakki er sprottinn upp af verk­efninu Hleðsla í hlaði, samstarfs­verk­efni Hey Iceland, Bænda­sam­taka Íslands og Orku­seturs sem hefur það markmið að fjölga hleðslu­stöðvum fyrir rafbíla í sveitum landsins.

Í dag eru tólf félagar innan Hey Iceland komnir með hleðslu­stöðvar og fer þeim fjölg­andi sem opnar nýja mögu­leika fyrir þá sem vilja ferðast um landið á rafmagnsbíl.